Skip to content

Hallir ímyndanna / Palaces of Projections

Ísleifur Sesselíus Konráðsson (1889-1972)

Undirstaða allrar listsköpunar er einlægni – að tjá hugmyndir, reynslu og tilfinningar án tilgerðar. Ísleifur málaði ekki yfirborð hluta, hann horfði innávið, sá inn í kviku landsins. Pensilskrift hans minnir á fínlegan útsaum með skrautlegum slettum, allir litir tempraðir, nema undirskriftin sjálf sem kemur upp um ákefð málarans. Hér sjáum við vel skipulagt land – skrautleg einföld form þar sem töfrar hversdagsins eru dregnir fram í dagsljósið.

Árið 1962, þegar Ísleifur Konráðsson var kominn yfir sjötugt, opnuðust hjá honum flóðgáttir sköpunarkraftsins og næsta áratug hélt hann átta einkasýningar þar sem hann sýndi yfir 200 málverk. Það eru nú komin yfir 50 ár síðan verkum Ísleifs hefur safnað saman og þau sýnd heildstætt eins og gert er á þessari sýningu. Verk hans tjá afdráttarlausa einlægni málarans gagnvart viðfangsefninu – hvort sem um ræðir þekkta staði eða sýnir listamannsins úr skáldaðri fortíð, þar sem myndbirtast heiðavötn, klettamyndanir, skálar, seglskútur og hallir.

/

1 / 12

Vestursalur / West Room 2025
Sýningargerð / Curator Unnar Örn
Rannsókn og textar / Research and texts Unnar Örn
Samantekt á ættum og æfi Ísleifs / The summary of Ísleifur’s biography Sonný Hilma L. Þorbjörnsdóttir, Hildur Guðmundsdóttir & Nanna Guðmundsdóttir

Ísleifur Konráðsson fæddist 1889 á prestsetrinu Stað í Steingrímsfirði á Ströndum. Foreldrar hans voru ógift vinnuhjú þar, Konráð Sigurðsson (1867 –1940) og Þorbjörg Jónsdóttir (1865 -1922). Þau eignuðust tvo syni, Ísleif og Jón (1890 – 1961) með árs millibili. Þegar Ísleifur var eins árs var hann sendur í fóstur til Ólafar Jörundardóttur (1847 – 1903) á Hafnarhólma á Selströnd í Kaldrananessókn, ekki langt frá stórbýlinu Stað. Ólöf var 43 ára, ógift og barnlaus þegar hún tók Ísleif að sér en harðbýlt var á þessum slóðum og algengt að börn væru send í fóstur vegna fátæktar. Þorbjörg móðir Ísleifs og Ólöf voru fjórmenningar og ekki ólíklegt að þær hafi þekkst þar sem stutt var á milli bæja og töluverð samskipti ábúenda í sveitinni. Til eru sagnir af því að Ólöf hafi verið næm á umhverfi sitt og trúað á álfa og huldufólk og má fastlega gera ráð fyrir því að áhugi hennar á dulrænum efnum hafi haft áhrif á hugarheim Ísleifs í uppeldinu. Lesa meira

/

Exit mobile version