Skip to content

English below

Ísleifur Konráðsson fæddist 1889 á prestsetrinu Stað í Steingrímsfirði á Ströndum. Foreldrar hans voru ógift vinnuhjú þar, Konráð Sigurðsson (1867 –1940) og Þorbjörg Jónsdóttir (1865 -1922). Þau eignuðust tvo syni, Ísleif og Jón (1890 – 1961) með árs millibili. Þegar Ísleifur var eins árs var hann sendur í fóstur til Ólafar Jörundardóttur (1847 – 1903) á Hafnarhólma á Selströnd í Kaldrananessókn, ekki langt frá stórbýlinu Stað. Ólöf var 43 ára, ógift og barnlaus þegar hún tók Ísleif að sér en harðbýlt var á þessum slóðum og algengt að börn væru send í fóstur vegna fátæktar. Þorbjörg móðir Ísleifs og Ólöf voru fjórmenningar og ekki ólíklegt að þær hafi þekkst þar sem stutt var á milli bæja og töluverð samskipti ábúenda í sveitinni. Til eru sagnir af því að Ólöf hafi verið næm á umhverfi sitt og trúað á álfa og huldufólk og má fastlega gera ráð fyrir því að áhugi hennar á dulrænum efnum hafi haft áhrif á hugarheim Ísleifs í uppeldinu. 

Þorbjörg móðir Ísleifs giftist Eyjólfi Stefánssyni (1866 – 1938) bónda á Kaldrananesi þegar Ísleifur var á unga aldri og eignuðust þau fjóra syni, Kristján Ólaf (1896 – 1994), Stefán Halldór (1900 – 1926), Benedikt Magnús (1900 – 1926) og Inga Guðjón (1904 – 1962). Jón, eini albróðir Ísleifs, ólst upp hjá móður sinni, stjúpföður og hálfbræðrum í Kaldrananesi. Ágætt samband var á milli þeirra bræðra en stutt var yfir í Hafnarhólma til Ísleifs og umgengust þeir töluvert á æskuárum sínum. Jón albróðir Ísleifs giftist Guðbjörgu Gestsdóttur(1895 – 1969) sem ólst upp á Hafnarhólma, einum af tveimur bæjum sem báru það nafn, á sama blettinum á Drangsnesi og þekktust þau öll vel á yngri árum því nábýlið á Ströndum var mikið.

Ísleifur var á fjórtánda ári þegar Ólöf fóstra hans dó en þá fluttist hann af Ströndum og sótti vinnu vítt og breitt, bæði innan lands og utan. Frá 1919 ferðaðist Ísleifur víða um lönd og vann m.a. á kaupskipum, dvaldi lengi í Kaupmannahöfn við ýmis störf, meðal annars á veitingahúsi á Aðaljárnbrautarstöðinni. Á þessum árum voru samskipti bræðranna oft á tíðum slitrótt eða allt þar til að Ísleifur flytur alfarið aftur til Íslands um 1930-35.

Konráð faðir þeirra bræðra flutti til Kaupmannahafnar þegar synir hans tveir voru á unga aldri uppúr 1894. Þar settist hann að og giftist íslenskri konu, og eignuðust þau tvo syni. Ekki er vitað til þess að Íseifur hafi haft nokkuð samband við hálfbræður sína eða föður en töluverður aldursmunur var á bræðrunum og lítið ef nokkuð samband milli þeirra feðga. Þó er vitað er að Ísleifur bjó í námunda við föður sinn í Kaupmannahöfn og sigldu þeir á sínu hvoru skipinu á milli Kaupmannahafnar og New York, en Ísleifur var í fimm ár í siglingum þar á milli á skipinu Friðrik VIII. 

Jón bróðir Ísleifs og Guðbjörg kona hans eignuðust tólf börn sem voru honum vel kunnug, þótti þeim vænt um frænda sinn og töluðu um hann af innilegri frændsemi og væntumþykju. Eftir að Ísleifur er alkominn til Íslands uppúr 1935 og sestur að í Reykjavík, bjuggu Jón bróðir hans og Guðbjörg kona hans einnig þar ásamt flestum frændsystkinum og styrktust þá böndin á milli þeirra. Ísleifur leigði herbergi á nokkrum stöðum í borginni eftir heimkomuna en þegar Jón bróðir hans lést árið 1961 flutti hann til Guðbjargar mágkonu sinnar í Hátún 4. Þar var hann með herbergi fyrir sig, pláss fyrir dívan, myndirnar sínar og trönur. Mjög gestkvæmt var hjá Guðbjörgu, þar sem börnin tólf og barnabörn komu oft í heimsókn. Ísleifi þótti gaman að hafa þau nærri og spjalla um heima og geyma. 

Ísleifur var draumamaður og trúði á máttinn í náttúrunni og því dulmagnaða sem fólki er oft hulið og þótti gaman að segja ættingjunum frá þeirri veröld. Hann var sagna- og íslenskumaður og skrifaði upp og myndskreytti ljóð sem honum þótti fögur. Þessi áhugamál hans lituðu oft samræður sem hann átti við ættingjana. Hann ferðaðist mikið um landið og tók myndir af landslagi á kassavélina sína sem hann síðan málaði eftir. Eins tók hann myndir af flestum málverkum sínum. Ísleifur dvaldi í Hátúni 4 hjá ættingjum sínum þar til hann fékk pláss á Hrafnistu 1968, stuttu áður en Guðbjörg mágkona hans lést.

Ísleifi leið vel á Hrafnistu þau fjögur ár sem hann átti ólifað. Í fyrstu var honum úthlutað herbergi en síðan litlu raðhúsi þar sem hann hafði gott pláss fyrir sig. Frændfólk hans aðstoðaði hann oft við að ná í það sem hann þurfti. Ísleifi er minnst sem hlýjum, ljúfum, barngóðum manni sem hafði alltaf tíma fyrir innihaldsríkt spjall. Margir ættingjar minnast hans þar sem hann sat og hallaði sér fram á stafinn sinn og fylgdist með sjónvarpinu og því sem fram fór á heimilinu án þess þó að taka mikinn þátt í því sem fram fór. Hann var mikið út af fyrir sig, einrænn en þótti gott að finna fyrir ys og þys lífsins sem rann fyrir augu hans.  Ísleifur lést í Reykjavík, 3. Júní 1972, þá 83 ára að aldri og hvílir í grafreit á æskuslóðum sínum á Ströndum í stekknum í kirkjugarðinum á Drangsnesi. 

Samantekt á ættum og æfi Ísleifs tóku saman Sonný Hilma L. Þorbjörnsdóttir, Hildur Guðmundsdóttir og Nanna Guðmundsdóttir barnabörn Jóns Konráðssonar og Guðbjargar Gestsdóttur.

/

Exit mobile version