Sýnisbækur
Safnasafnið hóf útgáfu á sýnisbókum safneignar árið 2016 í þeim tilgangi að rannsaka og kynna fleirum en þeim sem heimsækja sýningar safnsins listaverkaeign sína. Að baki liggur fyrst og fremst sú stefna að skrásetja og miðla vanmetnum þætti íslenskrar listasögu sem safnið hlúir markvisst að. Sýnisbækurnar sem nú þegar hafa komið út fjalla um fjölbreytt verk ólíkra listamanna, þekktra sem ókunnra.
Bókaröðinni ritstýrir Unnar Örn og er hönnuð af Ármanni Agnarssyni. Allar bækur eru í stærðinni 24 x 17 cm, saumaðar í kjölinn og bundnar í 240gr kápu. Hægt er að óska eftir kaupum á bókum með því að senda okkur skilaboð á netfangið safnasafnid@gmail.com. Við sendum hvert á land sem er. Uppseldar bækur er hægt að nálgast rafrænt með því að smella á kápumynd tiltekinnar útgáfu hér að neðan.
↓
XI – GÍA
Útgáfuár / 2024
Blaðsíður / 156
Tungumál / Íslenska & enska
GÍA fjallar um verk og listferil Gígju Guðfinnu Thoroddsen (1957-2021), eða GÍU eins og hún kallaði sig. Verk GÍU hafa ríkar skírskotanir til listasögunnar, samfélagsins, andlegra þátta, þekktra einstaklinga, arkitektúrs og svo í eigin reynsluheim, sem hún miðlaði af áræðni og örlæti, þá sérstaklega sem virkur notandi geðheilbrigðisþjónustu hér á landi.
Bókin er prýdd fjölda ljósmynda af verkum hennar ásamt greinandi úttekt eftir Margrét M. Norðdahl og textum frá Atla Bollasyni, Ástu Thoroddsen og Níelsi Hafstein.
↓
X – Ingvar Ellert
Útgáfuár / 2024
Blaðsíður / 92
Tungumál / Íslenska & enska
Í bókinni eru kynnt verk eftir Ingvar Ellert Óskarsson (1944-1992). Þó myndheimur Ingvars væri flókinn dró hann ýmsar persónur og fyrirbæri fram í dagsljósið, oft með einföldum hætti en líka í flúri og útúrdúrum.
Bókin er prýdd fjölda ljósmynda af verkum hans ásamt úttekt á lífshlaupi hans og viðkynnum af geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Níels Hafstein ritar greiningu um listamanninn og Guðmundur Vignir Óskarsson um lífshlaup hans.
↓
IX – Mannsmynd
Útgáfuár / 2023
Blaðsíður / 124
Tungnumál / Íslenska & enska
Bókin sýnir valin listaverk úr safneign Safnasafnsins sem eiga það sameiginlegt að spegla og formgera hugmyndir fólks af mannslíkamanum og mannsmyndinni í ýmsum miðlum. Níels Hafstein ritaði ítarlega greiningu á viðfangsefninu.
VIII – Svava Skúladóttir
Útgáfuár / 2022
Blaðsíður / 68
Tungumál / Íslenska & enska
Svava Skúladóttir (1909-2005) byrjaði að skapa þegar hún var komin á efri ár og hóf að nýta sér verkstæði fyrir félagsstarf eldri borgara. Í bókinni er teikningar, málverk og skúlptúrar Svövu til umfjöllunar en þau bera þess merki að vera sköpuð hratt og af einurð, óttaleysi og lífsorku.
Bókin geymir æviágrip listakonunnar, greiningu verka hennar eftir Níels Hafstein sem og texta eftir Sigríði Ágústdóttur.
VII – Ragnar Hermannsson
Útgáfuár / 2022
Blasíður / 64
Tungumál / Íslenska & enska
Í bókinni eru kynnt verk eftir alþýðulistamanninn Ragnar Hermannsson (1992-2009) sem var frá Flatey á Skjálfanda. Bókin er prýdd fjölda ljósmynda ef verkum Ragnars ásamt greinandi úttekt á verkum hans og starfsaðferðum eftir Níels Hafstein.
VI – Leynigarðar
Útgáfuár / 2021
Blaðsíður / 128
Tungumál / Íslenska & enska
UPPSELD
Leynigarðar kynnir listaverk eftir þekkta og óþekkta höfunda sem og handverk og fjöldaframleidda gripi sem finna má í safneign Safnasafnsins. Gróður leikur stórt hlutverk í öllum verkunum. Bókin er prýdd fjölda ljósmynda ásamt texta eftir Níels Hafstein og Starkarð Sigurðarson.
V – Þvílíkasafnið
Útgáfuár / 2021
Blaðsíður / 98
Tungumál / Íslenska & enska
Verk Bjarna H. Þórarinssonar myndlistarmanns, eða Dr. “Vísi” eins og hann er stundum kallaður, eru tekin saman í þessu riti. Bókin er prýdd fjölda ljósmynda af verkum hans ásamt æviágripi og texta eftir Níels Hafstein. Þá geymir bókin einnig viðtal sem Goddur – Guðmund Oddur Magnússon tók við Bjarna um verk hans og starfsaðferðir.
↓
IV – Kiko Korriro
Útgáfuár / 2019
Blaðsíður / 98
Tungumál / Íslenska & enska
Í bókinni er sagt frá alþýðulistamanninum Þórði Valdimarssyni (1922- 2002) sem ávallt kallaði sig Kiko Korriro. Bókin er prýdd myndum af verkum listamannsins sem var afar afkastamikill. Lífshlaup og listsköpun Kiko er rakin í greinandi textum eftir Níels Hafstein, Aðalstein Ingólfsson og Þórð Sverrisson.
↓
III – Fuglar
Útgáfuár / 2019
Blaðsíður / 68
Tungumál / Íslenska & enska
Bókin sýnir verk úr safneign safnsins þar sem fuglar eru viðfangsefni listamanna. Bókin er prýdd fjölda ljósmynda af verkum tæplega 40 listamanna. Textar eru eftir Níels Hafstein, Hörpu Björnsdóttur og Þór Magnússon.
II – Hannyrðir
Útgáfuár / 2016
Blaðsíður / 68
Tungumál / Íslenska & enska
UPPSELD
Hér er á ferðinni önnur bók í ritröð Safnasafnsins um íslenska alþýðulist. Sjónum er beint að handverki og þróun þess. Magnhildur Sigurðardóttir, Bryndís Símonardóttir, Guðrún Hadda Bjarnadóttir, Jenný Karlsdóttir og Sigrún Höskuldsdóttir unnu greiningu á handverki fyrir bókina og Níels Hafstein ritar formála.
↓
I – Sýnisbók safneignar
Útgáfuár / 2016
Blaðsíður / 108
Tungumál / Íslenska & enska
UPPSELD
Fyrsta ritið í röð bóka sem ætlað er að miðla safneign Safnasafnsins útfyrir veggi safnsins. Markmiðið er að auka veg og hróður íslenskrar alþýðulistar. Í þessu riti gefur að líta verk eftir 25 listamenn og konur. Textar í bókinni eru eftir Níels Hafstein og Hörpu Björnsdóttur.