Saga safnsins
Safnasafnið, höfuðsafn íslenskrar alþýðulistar, var stofnað 17. febrúar árið 1995, af hjónunum Níelsi Hafstein myndlistarmanni og Magnhildi Sigurðardóttur geðhjúkrunarfræðingi. Hafa þau byggt upp myndarlega sýningaraðstöðu sem samanstendur af gamla barnaskólanum, sem jafnframt var þinghús Svalbarðshrepps, og kaupfélagshúsinu Gömlu-Búð sem reist var árið 1900 á Svalbarðseyri en flutt á safnlóðina 2006 og endurgert. Voru þessi tvö virðulegu hús síðan tengd saman með glæsilegri viðbyggingu og safnið opnað í núverandi mynd 2007 með 10 misstórum sölum og alls 474 fermetra sýningarrými. Stofnendum Safnasafnsins hefur á tveimur áratugum þannig tekist það sem ólíklegt þótti, að færa alþýðulistina af jaðrinum inn að miðju og lokka jafnframt skólaða nútímalistamenn til heilladrjúgs samstarfs.
↓
Sérstaða
Safnasafnið hefur þá sérstöðu meðal listasafna á Íslandi að safna jöfnum höndum list eftir leika sem lærða, þó að meginstofni verkum sjálfmenntaðra listamanna. Hefur Safnasafnið sem höfuðmarkmið að kynna til leiks þessa sjálfmenntuða listamenn, sem hafa löngum ekki hlotið verðskuldaða viðurkenningu. Hafa verk þeirra jafnvel oft verið geymd áratugum saman í geymslum listasafna og aldrei sýnd, þar sem þau falla ekki að söfnunar- og sýningarstefnu viðkomandi safna. Með því að tefla verkum hinna sjálfmenntuðu fram í samtali við verk lærðra listamanna, tekur Safnasafnið þann útgangspunkt að sýna listaverk á jafnréttisgrundvelli, þar sem eina krafan er gæði verkanna.
Safneign
Grunnsafneignin telur um 150.000 listaverk, gerð af 323 sjálflærðu og skólalærðu listafólki frá miðri nítjándu öld til dagsins í dag. Einnig er sérstakar safndeildir, eins og til dæmis Kikó-Korriró-stofa, þar sem varðveitt eru 120.000 verk eftir Þórð Guðmund Valdimarsson (1922-2002).
Viðurkenningar
Safnasafnið var í lokaúrvali tilnefninga til hinna alþjóðlegu verðlauna Dr. Guislain-stofnunarinnar í Ghent, Belgíu, árið 2014, en sú stofnun er þekkt fyrir stuðning sinn og vinnu í þágu einstaklinga með geðræn vandamál, einkum listsköpun þeirra og rekur m.a. þekkt listasafn í þeim tilgangi.
Safnasafnið hlaut Eyrarrósina 2012, en markmið verðlaunanna er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Í umfjöllun dómnefndar segir:
Safnasafnið vinnur merkilegt frumkvöðlastarf í þágu íslenskrar alþýðulistar og hefur fyrir löngu sannað miklivægi sitt og sérstöðu. Sýningar þess byggja á nýstárlegri hugsun þar sem alþýðulist og nútímalist mynda fagurfræðilegt samspil. Í sölum Safnasafnsins sýna hlið við hlið frumlegir og ögrandi nútímalistamenn, sjálfærðir alþýðulistamenn, einfarar og börn. Samspil heimilis, garðs, safns og sýningarslala er einstakt og sífellt er bryddað upp á nýjungum.
Samstarf
Safnasafnið hefur unnið ötullega með íbúum Svalbarðshrepps og nærsveita við Eyjafjörð, og hefur frá upphafi haft frumkvæði að samstarfi við leikskóla- og grunnskólabörn sem sýna árlega í safninu, oft útfrá hughrifum heimsókna þeirra í safnið og listaverka sem þau upplifa þar. Einnig hefur Safnasafnið sýnt verk einstaklinga á ýmsum aldri sem unnið hafa á leirverkstæði handverksmiðstöðvarinnar Punktsins á Akureyri.
Hópurinn Huglist frá Akureyri hefur verið í samstarfi við Safnasafnið og sýnt verk sín í safninu, bæði saman og sem einstaklingar. Huglist var stofnað 2007 sem vettvangur fyrir fólk með geðræn vandamál sem vildi vinna gegn fordómum og vera sýnilegt í samfélagi við aðra. Starfsemi Huglistar fólst m.a. í fræðslu og listsköpun og sýndi sig fljótt að í hópnum voru öflugir listamenn, en hinn hávaxni, bláklæddi Safnvörður sem tekur á móti gestum á hlaði Safnasafnsins einmitt úr smiðju þeirra Huglistarfélaga.
Safnasafnið hefur auk þess átt í löngu og frjóu samstarfi við hið einstaka, sjálfbæra vistsamfélag að Sólheimum í Grímsnesi og sett upp sýningar á verkum listamanna sem þar búa og starfa.
Einnig hefur Safnasafnið verið í samstarfi við listahátíðina List án landamæra, þar sem fatlaðir og ófatlaðir mætast í list sinni og árlega fagnar fjölbreytileika mannlífsins og sköpunarkraftsins með fjölbreyttum listsýningum. Safnasafnið hefur einnig sýnt verk eftir nemendur í Vinnustofu í Myndlistaskólanum í Reykjavík.
Sýningar
Sýningar safnsins eru þaulhugsaðar og mikil vinna lögð í skipulag, undirbúning, útlit, sjónlínur, tengingar milli hæða og rýma, þekkjanleg tengsl og minni, sem og stigmögnun hughrifa. Safnasafnið setur jafnframt metnað í rannsaka og miðla, að standast ítrustu kröfur um fagmennsku og ábyrgð, kynna frumlegar hugmyndir og að viðhalda jafnréttishugsjónum sínum.
Safnasafnið er í stöðugri endurskoðun og tekur á sig skarpari mynd með hverju árinu sem líður, með þá hugsun ríkjandi að það eigi að höfða til barnsins í manninum jafnt sem barnanna sjálfra, að efla í leik og starfi þau gildi sem eru ráðandi við sköpun listar; hreina sýn, sjálfsprottna framsetningu, móttækileik, undrun, kímni, saklausa frásögn og tjáningu. Um leið opnar það augu fólks fyrir fegurð mismunandi listaverka, hluta og minninga, sem og samhljómi persónulegrar iðju og fjöldaframleiðslu, og sýnir hvernig einn hlutur tengist öðrum, vísar í þann þriðja og á hugsanlega samleið með þeim fjórða.