
Brúðustofa
Brúðustofan hefur til sýnis brúður íklæddar búningum frá flestum heimshornum. Brúðurnar á sýningunni eru 400 talsins,
en í safneign eru töluvert fleiri. Innlendir sem erlendir gestir hafa ánægju af að finna brúður frá heimalandi sínu og fræðast um leið um menningu annarra landa.
↓
Nokkru áður en stofnendur safnsins keyptu Þinghúsið og fluttu norður var Magnhildur Sigurðardóttir stödd í Kolaportinu að leita eftir útsaumuðum textíl, dúkum og teppum. Þá gekk hún að borði þar sem Jóhanna Kristjánsdóttir rithöfundur og Bragi bóksali seldu brúður úr safni móður þeirra, Elísabetar Ísleifsdóttur. Þessar brúður voru flestar úr fallegum efnum og vel gerðar, en ódýrar, þannig að hún keypti 90 stykki. Þegar hún var búin að greiða fyrir þær ávarpaði hana kona sem frá Akranesi og vildi gjarnan gefa henni safn sitt og senda það norður. Þar með var kominn grunnur til að byggja á. Smám saman fjölgaði í hópnum. Stórtækur gefandi var Eva Júlíusdóttir sálfræðingur í Reykjavík sem fór til flestra landa, tvisvar til allra fylkja Bandaríkjanna og þrisvar með ísbrjóti til Suðurpólsins. Á ferðum sínum keypti hún vandaðar brúður og gaf í safnið. Tók hún oft langa króka til að fá sem bestu eintökin og skipa þau stóran sess í salnum. Margar konur gáfu brúður sínar, gerðar af þeim sjálfum eða úr dánarbúum mæðra sinna, svo sem Engilbjört Jónsdóttir í Gallerí Fold sem skráði og gaf í sérstökum umbúðum. Undanfarin ár hefur verið tekið minna á móti gjöfum, nema þær séu annað hvort úr góðum textílefnum eða gerðar af konum sem hafa framfærslu af gerð þeirra, og er þá horft til hefðbundinna aðferða sem lýsa lífi þeirra og getu til að búa til eitthvað fallegt og einkennandi fyrir erfiðar aðstæður í þróunarlöndunum.