Skip to content

Örn Karlsson

Örn Karlsson (f. 1952) hefur unnið að myndlist frá unglingsaldri og hélt fyrstu einkasýningu sína í Jónshúsi í Kaupmannahöfn árið 1977. Hann teiknaði og bjó til klippimyndir, ásamt því að semja og spila tónlist með gjörningasveitinni Kamarorghestum Jónasar. Hann starfað lengst af á Hótel Búðum á Snæfellsnesi, Við Tjörnina og á Næstu grösum í Reykjavík. Þar sýndi hann verk sín oftar en einu sinni og á fleiri veitingastöðum, svo sem Bar 22 á Laugavegi. Þá voru listaverk hans kynnt hjá Samtökunum ´78, í Nýlistasafninu og Reykjavíkurakademíunni. Þótt framlag Arnar til íslenskrar myndlistar hafi náð athygli einstakra hópa sem skynja innri hreyfingar hennar er því ekki að leyna að flestir fjölmiðlar og gagnrýnendur sniðgengu hann. Það er skaði því listaverk hans hafa skírskotun í umrót ríkjandi samtíma og byltingarkenndar væntingar fólks um réttlátari heim þar sem borin er virðing fyrir manninum sem persónu með lýsandi einkenni og sjálfstæði til þess lífs sem hann velur sér 

Í höfundarverki Arnar eru teikningar í heftum og gormabókum fyrirferðamiklar og klippimyndir úr fundnu efni auk stafrænna verka svo þúsundum skiptir. Öll bera þau vott um ótrúlega vinnusemi og frábæra leikni í samsetningum ólíkra efnisþátta. Örn hefur gert raðir af bókverkum með rímuðum setningum sem hann kallar Nonsens kveðskap eða Firrur, í öðrum bókverkum er prentað efni klippt niður svo úr verða ljóð, til dæmis Klipphendur og Dödur. Árið 2021 kom út bókverkið Manifesto Malbikarans í 50 árituðum eintökum. Á síðsutu 2 árum hefur hann einbeitt sér að þrívíðum verkum þar sem aflagðir hlutir, leikföng og skrautmunir fá uppreisn æru í litlum menningarkimum

Verk Arnar kallast á við strauma jaðarlistar á 7. og 8. áratugum liðinnar aldar og endurspegla eins konar neðanjarðar hugmyndafræði sem ef til vill má rekja til framúrstefnulistar fyrstu ára 20. aldar og þá sérstaklega DaDa og Surrealisma. Meðal áhrifavalda eru Kurt Schwitters, Frank Zappa í tónlist og William S. Burroughs í textagerð, en útkoman er persónuleg með blæbrigðum hvers tímaskeiðs og umróti innan þess. Skúlptúrarnir draga dám af þessum hreyfingum en við bætast áhrif frá Andy Warhol og líka þeirri hugarfarsbylgju sem nú ryðst fram með háværri kröfu um sjálfbærni í loftlagsvá, endurnýtingu framleiðsluvöru og verndun náttúrunnar

Örn notar helst fundið efni í klippimyndir sínar, hvers konar miða og afganga. Pappírinn verður að fá að gera það sem hann gerir yfirleitt, rifna og verpast þegar hann lendir í rusli eða blotnar, eins og hann lýsir því sjálfur. Eitt fundið snifsi getur orðið að mynd sem heldur jafnvægi á fleti með eins lítilli viðbót og hægt er í formi og línum, með áherslu á afgerandi lit í heild, hvort sem það er einfalt andlit sem grípur augað í einni svipan, án þess þó að draga fram sérstakar tilfinningar, eða óhlutbundið verk sem erfitt er að ráða í. Fólk getur þó fundið eithvað sem rímar við eðli þess, til dæmis undrun og gleði eða séð sársaukafullt tillit í daufu endurskini í leyni bak við framhliðina sem vekur því beyg

Í stafrænu myndunum er klippitækninni beitt öðruvísi, til dæmis eru aðfengnar teikningar felldar inn í ljósmyndir með áhrifsbragði til að skapa ákveðinn veruleika. Í einni gerðinni er litur lagður ofan á til að skerpa eða dýpka, í annarri til að fela launhelgar. Yfirleitt eru þetta margra mynda raðir sem segja sögur sem er hægt að túlka, samþykkja eða hafna, líka draumkenndir einkaheimar og munúðarfullar langanir til lífs í raunveruleika fjarlægra staða. En þær eru ekki bara hillingar heldur líka hispursleysi áralangrar reynslu. Þrívíðu verkin eru annars eðlis, meira í takt við veraldlega sýn á umhverfið og umgengni manna, áminning um endurskoðun, nýtni, tiltekt og hreinleika í tilvistarrýmum þeirra

Þegar heildarverk Arnar er skoðað sést að það myndar samfellu innan hugmyndafræði og fagurfræði, en þótt sýruteikningar hans virðist við fyrstu sýn vera séráparti eiga þær vissa samsvörun í einfaldri formgerð og afmörkun línunnar í klippimyndunum. Vorið 2021 gaf hann Safnasafninu flest verk sín, um 10 þúsund að tölu, stakar teikningar og bækur með mynd á hverri síðu, klipp úr fundnum efnum, fjölfeldi, bókverk og sérútgáfur. Árið 2023 bættust 155 skúlptúrar við. Nokkur tilklippt pappírsandlit voru kynnt í safninu 2020 og skúlptúrarnir í sumar en nokkrir seldir til styrktar gjöfinni og umsýslu hennar, yfirferð, úttekt og skráningu. Örn Karlsson skipar sér í raðir þeirra myndlistarmanna sem fara eigin leiðir og eiga skjól í Safnasafninu, þeir gera það sérstakt og eftirtektarvert

Sýningar

2024 Samtíningur

Exit mobile version