Skip to content

Laufey Jónsdóttir

Laufey fæddist og ólst upp í Litlu-Hlíð í Víðidal, bjó síðar í Hvammstangahreppi, en býr nú á Akureyri. Uppvöxturinn í Litlu-Hlíð setti sitt mark á Laufeyju, þar innst í dalnum hallar til heiða og er útsýn takmörkuð til norðurs, en á móti bænum er Bergárfoss með hvíta bunu og nið sem hljómar í eyrum áratugum síðar. Laufey hafði í æsku mikinn áhuga á kindum, hermdi eftir látbragði þeirra og jarmi og lék sér að hornum í búi þeirra systkina á bæjarhólnum. Hún þekkti hvert fjármark og hverja kind af svip eða göngulagi, oft lengst uppi í fjalli. 

Laufey byrjaði ung að klippa út myndir af dýrum, litaði þær eftir lifandi fyrirmyndum í fjósi og fjárhúsi og lék sér með þær. Löngu síðar tók hún upp þráðinn þar sem frá var horfið og töfraði fram ær og lömb, fjöruga reiðhesta, hunda, kýr og ketti. Hún dró aldrei upp hjálparlínur en leyfði skærunum að taka stefnuna. Ærnar fengu skærgulan blæ og hestarnir bláan, eins og þeir stæðu í nokkrum skugga, en fólkið veðrað og lífsreynt, traust og ákveðið á svip. Jafnframt klippimyndunum teiknaði Laufey á viðarplötur sem Jón Sigurðsson eiginmaður hennar sagaði út, og hún síðan málaði. Verk Laufeyjar hafa verið kynnt í Safnasafninu, einnig á sýningunni Yfir Bjartsýnisbrúna í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, 2003.

Exit mobile version