Skip to content

Sýningar 2022

1 / 13

Útiverk og anddyri

Hávaxni safnvörðurinn bláklæddi var gerður af listahópnum Huglist árið 2009 og hefur staðið vaktina síðan í öllum veðrum. Við innganginn er sýnt stækkað málverk eftir Eggert Magnússon og höggmynd á vegg eftir Hauk Halldórsson sem sýnir guðinn Þór lyfta Miðgarðsormi í kattarlíki. Einnig eru við innganginn steypt og hvítmáluð verk eftir Helga Valdimarsson.

Verk Ragnars Bjarnasonar frá Öndverðarnesi taka fagnandi á móti gestum á hlaði og í anddyri safnsins, en þau eru úr járnbentri steinsteypu sem hann málaði og kom upphaflega fyrir í garði sínum í Eikjuvogi 26 í Reykjavík.

Í anddyrinu eru kynnt til sögu fjölmörg verk undir sýningarheitinu Um höf og vötn. Höfundar eru 22 í jöfnu kynjahlutfalli og hafa þeir gert báta og skip úr fjölbreyttum efnivið. Nemendur úr Valsárskóla á Svalbarðsströnd sýna einnig verk sín í anddyrinu, sem þau unnu útfrá sama þema.

Við sólpall að vestan er tréskúlptúrinn Bæn eftir Hjalta Skagfjörð Jósefsson.

2 / 16

Óskar og Blómey

Þau eru alltaf nefnd í sömu andránni, Óskar Magnússon (1915–1993) og Blómey Stefánsdóttir (1914–1997), og kannski ekki furða, svo samofin voru örlög þeirra og ævi. Þau bjuggu í um 30 ár í Blesugrófinni í sérkennilegu húsi sem Óskar byggði úr tilfallandi efni og nefndi Garðstungu eftir æskuheimili sínu. En meiri athygli vakti þegar þau tóku upp búsetu á Hellisheiði og lifðu þar hálfgerðu útilegumannalífi í tæpan áratug. Í heiðinni byggði Óskar hús úr kassafjölum, torfi og grjóti og fékk þessi bústaður líka nafnið Garðstunga.

Það vakti athygli Hildar Hákonardóttur myndvefara þegar hún heimsótti þau hjón eitt sinn í Blesugrófina að þau höfðu vefstól og ófu teppi og bauð hún Blómeyju að koma á kvöldnámskeið hjá sér í myndvefnaði. Óskar fylgdi Blómeyju á námskeiðið og tók fljótlega sjálfur til við að vefa myndir. Varð hann sem heillaður af þessari listgrein og sagði:

„Vefnaðurinn er list alþýðumannsins. Ekkert horn er það dimmt og ekkert hreysi það smátt að þar megi ekki vefa teppi.“

Sameinuðu þjóðirnar

Þessi hluti Safnasafnsins sýnir brúður íklæddar búningum frá flestum heimshornum. Brúðurnar á sýningunni eru 400 talsins en í safneign eru alls um 800 gripir. Innlendir sem erlendir gestir hafa ánægju af að finna brúður frá heimalandi sínu og fræðast um leið um menningu annarra landa.

Heimar Önnu í heiminum

Anna Richardsdóttir er þekkt fyrir áhrifaríka gjörninga þar sem hún ögrar oft viðteknum hugmyndum og tekst af hispursleysi á við kvenleika og kvenhlutverk. Verk hennar fjalla í innsta kjarna sínum um hreinsun líkama og hugarfars, kvenímyndir, nekt og erótík, jafnvel dulinn sársauka.

5 / 11

Áhrifavaldar

Á sýningunni má sjá verk eftir 7 konur sem allar eru sannir áhrifavaldar í listsköpun sinni. Lára Lilja vefur töfrandi skúlptúra, garn og band á trjágreinar, og málar hyldjúp abstrakt málverk. Elín Sigríður María teiknar sjálfsævisöguleg og skálduð ævintýri. Sigrún Huld málar af mikilli nákvæmni hús og fugla í björtum litum. Elín Fanney vinnur með dægurmenningu og texta úr popptónlist sem öðlast áhrifaríkari merkingu í textaverkum hennar. Helga Matthildur gerir kröftugar teikningar með túss og pennum. Guðrún Bergsdóttir vinnur verk sín með nál og þræði, spor fyrir spor, flöt fyrir flöt, án forskriftar. Edda Guðmundsdóttir mótar dýr og sögur í leir.

Í gegnum aldirnar hefur verið horft framhjá því að skrásetja list sumra í listasöguna. Þetta eru hópar og einstaklingar sem samfélagið hefur oft ýtt út á jaðarinn í ýmsu tilliti. Sumir áhrifavaldar í listasögunni eru enn ósýnilegir og stundum hunsaðir. Safnasafnið hefur alla tíð leitast við að má út slík landamæri mismununar og gæta jafnræðis. Það er fullt af fólki af ólíkum kynjum og uppruna og fatlað fólk sem hefur gert mikilvæg listaverk í gegnum árin og aldirnar, sem með list sinni hefur haft áhrif á annað listafólk, á þróun og strauma og stefnur í listasögunni, raunverulegir áhrifavaldar sem þarf að viðurkenna og gera grein fyrir hlut þeirra og áhrifum í list og menningu hvers samfélags. 

Aldarminning

Ragnar Hermannsson fæddist árið 1922 að Bjargi í Flatey á Skjálfanda, þar sem hann bjó lengst af ævi sinnar. Þegar búskap lauk fluttist hann til Hermanns sonar síns og Dómhildar Antonsdóttur konu hans á Húsavík, en hélt þó áfram sjósókn með Jóni bróður sínum þar til hann fór á dvalarheimilið Hvamm.

Safnasafnið fagnar aldarminningu Ragnars með útgáfu bókar um listaverk hans og sýningu á bátum sem hann smíðaði og fólki sem hann tálgaði út á efri árum. Það er einkum þrennt sem prýðir fólkið hans Ragnars: afmörkuð form, sterkir óblandaðir litir og vel smíðaðir skór. Hæversk ró svífur yfir verkunum og um þau leikur blær liðinna tíma, hjartans einlægni og tilgerðarleysi. Verkin lýsa karlmannlegum persónuleika höfundar, þau eru raunsæir vitnisburðir um hagleik sem er til eftirbreytni og hefur lifað með íslensku þjóðinni um aldir.

7 / 10

Verslunin

Verslun Ásgeirs G. Gunnlaugssonar & Co var í Austurstræti í Reykjavík og í eigu sömu fjölskyldu frá 1907 til 2006 þegar hún var lögð niður. Í dag eru innréttingarnar notaðar sem umgjörð um sýningar tengdar textíl, hannyrðum og handverkshefðum.

Þá eru sýnd ilmvatnsglös sem Sara Hólm á Akureyri gaf safninu 2018. Glösin eru frá helstu tískuhúsum veraldar og hönnuð af heimsþekktum listamönnum, þar á meðal Salvador Dali og Pablo Picasso.

Að undrast með nál – þar sem þráðurinn verður sagan

Kristín Dýrfjörð sýnir í ár útsaumsverk í versluninni þar sem hún túlkar með nál og þræði upplifun sína af náttúrunni allt um kring, kallar fram í útsaumi hugsýn af eldsumbrotum jafnt og bláar heiðatjarnir, fugla og blómskrúð sumars. Litir og form raðast upp í einstaka samofna heild sem vekur ljúf hughrif, minningar og sögur.

Skautbúningur

Einnig er í ár sýndur í versluninni Skautbúningur sem Magnhildur Sigurðardóttir saumaði árin 2021-2022. Búningurinn er gerður eftir hugmyndum sem Sigurður Guðmundsson málari (1833-1874) setti fram á árunum 1857-60 í samstarfi við áhugasamar hannyrðakonur, í þeim tilgangi að endurvekja íslenska þjóðbúninginn.

Bókastofa

Í bókastofunni eru ógrynni bóka og fræðirita um flestar helstu listgreinar, svo sem myndlist, hönnun, arkitektúr, textíl og handverk. Fræðafólk og áhugamenn geta þar einnig fengið aðgang að upplýsingum um safneign, sýningarhald og rannsóknir Safnasafnsins á alþýðulist og alþýðulistamönnum.

Limlestingar

Í bókastofunni eru í ár sýndir skúlptúrar og teikningar eftir Rósu Sigrúnu Jónsdóttur þar sem hún veltir fyrir sér breyttu fegurðarmati nútímans sem hefur ekki smekk fyrir postulínsstyttunum sem áður þóttu hin mesta híbýlaprýði. Í listrænni umbreytingu Rósu Sigrúnar fá þessir gripir harkalegt spark þar sem snúið er upp á inntak og útlit.

12 / 10

Skolað á land

Í innra rými verslunarinnar, svokallaðri Suðurstofu, eru sýnd verk úr safneign gerð úr skeljum og kuðungum, langflest án þekkts höfundar. Eru þessi verk lýsandi dæmi um hugkvæmni og frjótt hugmyndaflug alþýðufólks og sýna hvað náttúrulegur efniviður sem bárur hafsins hafa skolað á land getur örvað fólk til fjölbreytilegrar sköpunar.

Samstarf við skóla

Árlega efnir Safnasafnið til samstarfs við grunn- og leikskóla á Eyjafjarðarsvæðinu. Þetta samstarf er hugsað til þess að efla listrænan áhuga og hugmyndaflug barnanna frá unga aldri, en einnig er safninu heiður og ánægja að þátttöku þeirra, lífsgleði og sköpunarkrafti. Í ár sýna börnin í leikskólanum Álfaborg verk sín í blómastofunni inn af brúðusafninu og nemendur í Valsárskóla sýna verk sín í anddyrinu. Í ár gerðu gerðu börnin báta og skip í anda sumarsýningarinnar Um höf og vötn.

14 / 9

Gígja Thoroddsen

Gígja Thoroddsen (1957 – 2021), sem notaði listamannsnafnið Gía, trúði því að ástin og listin búi innra með okkur öllum. Gígja var beintengd við þessi öfl enda stórbrotin listakona. Mörg verka Gígju hafa augljósa skírskotun í listasöguna, önnur sýna reynslu hennar af geðheilbrigðiskerfinu, og eins málaði hún gjarnan velþekkta einstaklinga og má þar nefna Maríu mey, Pál Óskar, Adolf Hitler, Marilyn Monroe og Jóhönnu Sigurðardóttur. Að eigin mati, og algjörlega laus við hroka, kvaðst hún vera besti myndlistarmaður í heimi. Verk hennar vöktu fljótlega eftirtekt innan listheimsins, sérstaklega hjá þeim sem unna sjálfsprottinni list, og í tvígang var hún valin listamaður hátíðarinnar List án landamæraÁrið 2016 hélt hún sýningu í Safnasafninu og gaf safninu að því loknu úrval verka sinna.

Gígja var ötul, hún sýndi víða, gaf verk sín þangað sem henni þótti þörf á og lét eftir sig mörg hundruð verk. Titill sýningarinnar Fuglinn er floginn vísar í eitt af síðustu verkunum sem hún gerði og má sjá á sýningunni, það er sérlega táknrænt og áhrifamikið og sýnir veru með fuglabúr yfir höfðinu, hurðin á búrinu er opin og fuglinn er floginn. Við lát Gígju ánafnaði Ásta Steinunn Thoroddsen systir hennar Safnasafninu um 800 verk eftir Gígju, ásamt veglegri peningagjöf. Kann safnið Ástu og fjölskyldu dýpstu þakkir fyrir gjöfina og traustið.

15 / 8

Hildur Hákonardóttir

Hildur Hákonardóttir er þjóðkunn fyrir listsköpun sína og margþætt störf á sviði myndlistar og ritlistar. Hún er óhrædd við að fjalla um kvenna- og réttlætisbaráttu í list sinni og eins hafa tengsl manns við náttúru verið henni hugleikin. 

Í innsetningunni sem Hildur hefur sett upp í Safnasafninu undir yfirskriftinni Ef ég væri birkitré leitast hún við að setja sig inn í hlutverk birkitrésins og skilja betur eðli þess. Hún segir: „Birkið er frumbýlisplanta sem leggur út á eyðisanda og græðir þá. Það er verndari ungbarna og meyja, hreinsar örplast úr jarðvegi, eyðir óæskilegum bakteríum og framleiðir súrefni. Sýningarsalur myndlistar er vé fagurfræðinnar. Birkikústurinn hreinsar svæðið, sópar út eldri hugmyndum og erfiðum hugrenningum. Ég núllstilli orkuna í sýningarsalnum áður en ég hefst handa við að skapa mína eigin sýningu.

Tré og plöntur hafa þróað aðferðir við að koma upplýsingum sín á milli. Laufin vinna þráðlaust loftleiðina, neðanjarðar í gegnum eigin rætur eða rætur hjálpara þeirra, sveppanna. Crome, facebook, firefox, google, instagram, internet, messenger, morse, podcast, radar, safari, signal, sjónvarp, skype, snapchat, sónar, talsími, talstöð, teams, tik-tok, twitter, útvarp, youtube, we-transfer, whats-app, zoom – öll þessi nöfn og fleiri höfum við gefið manngerðum samskiptakerfum sem reyna að líkja eftir þeim sem finnast í náttúrunni.“

Land Almanak: Safnrit um hlutföll

Unnar Örn sýnir verkið Land Almanak: Safnrit um hlutföll en þar gefur að líta safn ljósmynda úr leiðöngrum erlendra vísindamanna um víðerni Íslands á árunum 1890 – 1930. Markmið þessara könnunarleiðangra var að kortfæra öræfi Íslands og var þar fyrst og fremst litið til landkosta, gæða og eiginleika landsins útfrá hugmyndum þess tíma um rannsóknir og nýtingu á víðáttum hálendisins. 

Þessir erlendu vísindamenn tengdust flestir jarðvísindum og höfðu ávallt hérlenda leiðsögumenn sér til halds og trausts í óbyggðum. Myndirnar á sýningunni sýna ekki bara landið sjálft heldur er þar ávallt ein manneskja, oftar en ekki leiðsögumaðurinn, sem er stillt upp sem viðmiði eða mælikvarða á landrýmið. Þannig mátti með ljósmyndinni og hinni vísindalegu aðferð ljósmyndatækninnar eigna sér allt í senn: landið og gæði þess, landslagið, fólkið og jafnvel auðnina sjálfa. 

Myndirnar, sem allar eru úr safni danska Þjóðminjasafnsins í Kaupmannahöfn, vekja upp spurningar um sjálfsmynd, upplifun mannsins af landi og eignarétt á víðáttunni.

Epilogue Letters (her withdrawal)

Verk Bjarka Bragasonar, Epilogue Letters (her withdrawal) er videóinnsetning sem fjallar um frásögn einstaklings um tímabil í eigin lífi sem skarast við pólitíska sögu samtímans, ásamt því að vísa í hvernig frásögn einstaklings getur speglað breytingar í stærra samhengi.

Árið 2003 studdu íslensk stjórnvöld hina svokölluðu fylkingu viljugra (coalition of the willing), þ.e. innrás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Írak. Verkið Epilogue Letters (her withdrawal) er unnið á árunum 2009 og 2010 og byggir á frásögn manneskju sem um tíma var í friðargæsluliði í Írak á vegum Íslands undir merkjum NATO, eftir að lýst hafði verið yfir lokum stríðs í landinu. Samtal milli listamannsins og hennar leiddi til þess að þau tóku upp bréfaskriftir um málefnið, en undir lok starfs hennar með friðargæsluliðinu var hún eini fulltrúinn á vegum Íslands í Írak. Í samfélagi jafningja í Baghdad, þar sem hennar nánasta samstarfsfólk tilheyrði gjarnan herfylkingum þeirra landa sem tóku þátt í stríðinu og eftirmálum þess, var hún jafnan talin tilheyra íslenskum her. Í samtali við Bjarka lýsir hún andartökum þar sem hún skilgreinir hlutverk sitt og þá togstreitu sem getur falist í því að vera einstaklingur og fulltrúi samfélags og flókinna aðstæðna þar sem mörkin á milli staðreynda og skáldskapar verða óljós.

Exit mobile version