Skip to content

Sýningar 2021

Útiverk og anddyri

Á hlaðinu tekur hávaxni safnvörðurinn bláklæddi á móti gestum. Vörðurinn var gerður af listahópnum Huglist árið 2009 og hefur staðið vaktina síðan í öllum veðrum. Við innganginn er sýnt málverk eftir Eggert Magnússon og höggmynd eftir Hauk Halldórsson sem sýnir guðinn Þór lyfta Miðgarðsormi í kattarlíki. Verk Ragnars Bjarnasonar frá Öndverðarnesi taka síðan fagnandi á móti gestum á hlaði og í anddyri safnsins, en þau eru úr járnbentri steinsteypu sem hann málaði og kom upphaflega fyrir í garði sínum í Eikjuvogi 26 í Reykjavík. Í anddyrinu eru sýnd verk eftir börn í Valsárskóla á Svalbarðsströnd og einnig kynnt verk úr safneign; tréskúlptúrar eftir Aðalheiði S. Eysteinsdóttur, litblýantsteikningar eftir Ásgeir Ísak Kristjánsson, teikningar eftir Nonna Ragnarsson, tréskúlptúrar eftir Ragnar Hermannsson og vatnslitamyndir eftir Svövu Skúladóttur. Við sólpall að vestan er tréskúlptúrinn Bæn eftir Hjalta Skagfjörð Jósefsson.

Sólheimar 90 ára

Hið óviðjafnanlega sjálfbæra samfélag að Sólheimum í Grímsnesi fagnaði 90 ára afmæli árið 2020. Listaverk eftir listafólkið sem búsett er að Sólheimum hafa löngum heillað þá sem hrífast af hispursleysi og einlægni sem einkennir verkin, þeirra á meðal stofnendur Safnasafnsins sem áttu þegar við stofnun þó nokkurn fjölda listaverka eftir listafólk búsett að Sólheimum. Var þannig frá upphafi lagður grunnur að blómstrandi samskiptum með reglulegum sýningum í Safnasafninu í samstarfi við Sólheima. Af einstakri rausn listafólksins hafa mörg verk verið gefin til safnsins að afloknum sýningunum og þegar litið er yfir farinn veg er gaman að sjá fjölbreytnina í verkum listafólksins og skynja kraftinn og gleðina sem býr að baki. Sýningin er framlag Safnasafnsins til hátíðarinnar List án landamæra árið 2020 og 2021.

Saumað með þræði tímans

Í Verslun Ásgeirs G. eru sýnd peysuföt sem Magnhildur Sigurðardóttir saumaði árið 2005. Þau eru úr ullarefni, húfan úr flaueli, en svuntan, slifsið og skúfurinn úr silki. Þá eru sýnd um 230 ilmvatnsglös sem Sara Hólm á Akureyri gaf safninu 2018. Glösin eru frá helstu tískuhúsum veraldar og hönnuð af heimsþekktum listamönnum, þar á meðal Salvador Dali og Pablo Picasso.

Tjáning augnabliksins í litum og áferð

Í innra rými verslunarinnar, svokallaðri Suðurstofu, sýndi Guðrún Pálína Guðmundsdóttir andlitsmyndir málaðar með akrýllitum. Hún túlkar með markvissri litanotkun og einfaldri teikningu þá margbreytilegu fegurð sem býr í fyrirmyndunum; fólki með fjölbreytta reynslu, lífsviðhorf, stöðu og uppeldi. Líkt og fyrirmyndirnar sjálfar þá eru sum andlitin innhverf og búa yfir ákveðinni dulúð en önnur ágeng og krefjandi og kalla á augnsamband.

Bókastofa

Í bókastofunni eru ógrynni bóka og fræðirita um flestar helstu listgreinar, svo sem myndlist, hönnun, arkitektúr, textíl og handverk. Fræðafólk og áhugamenn geta þar einnig fengið aðgang að upplýsingum um safneign, sýningarhald, ritgerðum og rannsóknum Safnasafnsins á alþýðulist og sérstæðum listamönnum. Í bókastofunni eru í ár sýnd verk í safneign; grímur eftir Vilmund Þorgrímsson gerðar úr fuglabringum og öðrum náttúrulegum efnum, og klippimyndir eftir Örn Karlsson, en Örn gaf Safnasafninu nýlega myndverk sín til varðveislu og umfjöllunar.

Brúðusafn

Þessi hluti Safnasafnsins sýnir brúður íklæddar þjóðbúningum frá öllum heimshornum. Brúðurnar á sýningunni eru 400 talsins en í safneign eru alls um 800 gripir. Innlendir sem erlendir gestir hafa ánægju af að finna brúður frá heimalandi sínu og fræðast um leið um aðrar þjóðir. 

Kærastafólkið

Í ár er í brúðustofunni sérsýning á verkum eftir Jonnu (Jónborgu Sigurðardóttir). Fólkið er prjónað úr garnafgöngum og saumað út í andlitin svo hvert og eitt fái sérstakt útlit. Kærastafólkið er barnslegt en hefur samt öðlast margs konar reynslu og búa andlitin yfir blæbrigðum einlægra tilfinninga og heillandi persónuleika.

Samstarf við skóla

Árlega efnir Safnasafnið til samstarfs við grunn- og leikskóla á Eyjafjarðarsvæðinu. Þetta samstarf er hugsað til þess að efla listrænan áhuga og hugmyndaflug barnanna frá unga aldri, en einnig er safninu heiður og ánægja að þátttöku þeirra, lífsgleði og sköpunarkrafti. Í ár sýna börnin í leikskólanum Álfaborg verk sín í blómastofunni inn af brúðusafninu og börnin í Valsárskóla sýna verk sín í anddyrinu. Í ár gerðu gerðu börnin andlit fólks og dýra, enda er það í anda sumarsýninganna að þessu sinni.

Augu sem leynast í landinu

Í Vestursal má sjá verk Sigurðar Einarssonar listmálara frá Selfossi sem hóf að mála þegar hann var um sextugt og sinnti þeirri iðju af mikilli elju til hinsta dags. Vöktu málverk hans snemma athygli stofnenda safnsins sem heilluðust af og festu kaup á verkum. Á síðasta ári hlaut Safnasafnið rausnarlega gjöf frá sveitarfélagi Hornafjarðar, rúmlega 300 málverk eftir Sigurð bættust við safneignina og mynda nú sterka heild sem hér er sýnt úrval úr í Vestursal.

Það þarf ekki allt að vera beint

Helga Páley Friðþjófsdóttir hefur unnið verk sín í fjölbreytilegan efnivið með teikningu sem grunnstef og útvíkkað mörk miðilsins svo falli að viðfangi hennar hverju sinni.

Gaurinn sem prjónar málverk

Loji Höskuldsson hefur vakið eftirtekt fyrir glettin útsaumsverk þar sem teflt er saman kunnuglegu og hversdagslegu myndefni í nýju og óvæntu samhengi.

Þvílíkasafnið og Boðberi skynvitanna

Bjarni H. Þórarinsson er löngu landsþekktur fyrir myndverk sín sem byggja á vísindalegu kerfi sem myndbirtist í fögrum rósættuðum teikningum. Kallar Bjarni sig Boðbera skynvitanna en aðferð sína Benduvísifræði. Heildarsafn verkanna ber heitið Þvílíkasafnið.

Goddur (Guðmundur Oddur Magnússon) hefur unnið með Bjarna H. Þórarinssyni til margra ára, tekið fjölda ljósmynda af honum og skrásett gjörninga hans ásamt því að hanna veggspjöld fyrir sýningar og sjónþing Bjarna. Vísirósirnar litfögru á sýningunni eru samvinnuverk Godds og Bjarna.

Hérna bý ég og mér líður vel

Arna Guðný Valsdóttir er þekkt fyrir ljóðrænar innsetningar með myndböndum og tónlist. Arna sýnir gjörning sem hún hefur útfært í margvíslegu listrænu samhengi undanfarna áratugi.

Með Guði á jaðri tilverunnar

Peter Michael Micari (1943-2017) var Bandaríkjamaður sem rúmlega fimmtugur flutti til Íslands árið 1994 og kunngerði að hann væri nývígður grísk-katólskur biskup, með leyfisbréf í farteskinu, hingað kominn til að flýja öfgana í heimalandinu, miðla af þekkingu sinni og leiða menn í allan sannleika á andlega sviðinu. Á sýningunni má einnig sjá í samspili við verk Peter Michael Micari röð ljósmynda eftir Godd (Guðmund Odd Magnússon) sem sýna Micari við ýmsar helgiathafnir.

Berglind Ágústsdóttir

Berglind Ágústsdóttir er þekkt fyrir frumlegan tónlistarflutning og kraftmiklar innsetningar þar sem teikning er jafnan í forgrunni. List hennar má helst líkja við skapandi flæði þar sem hún notar sjálfa sig, teikningar, liti, skúlptúra, myndbönd, innsetningar, gjörninga og tónlist til að miðla því sem henni liggur á hjarta. Verk Berglindar í Safnasafninu tjá gleði og ást í samspili við fjölbreyttar hreyfingar manna og dýra í skærum litum.

Exit mobile version