Í björtum sal
Hjálmar Stefánsson (1913–1989) fæddist á Smyrlabergi á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu. Hann bjó lengst af á Blönduósi, stundaði ýmis störf og byrjaði að mála á efri árum. Málverk Hjálmars eru sjálfsprottin og hafa enga fyrirmynd aðra en náttúruna sem hann þekkti og unni. Yfir þeim er barnslegur blær sem vitnar um lifandi nálægð. Hann tjáir hvernig veðrið skekur landið, færir það úr stað og mótar nýja ásýnd.
Hönnun sýningarinnar vísar í Smyrlabergið og með því að hengja málverkin frekar þétt myndast klettabelti. Hvít umgjörð salarins er hugsuð sem nokkurs konar andrými utan um hugmynd, inntak, form, línu og lit – sem um leið afmarkar og dregur athyglina að listsköpun Hjálmars.