Skip to content

Halldóra Kristinsdóttir

Halldóra [1930-2013] fæddist í Helguhvammi í Hvammstangahreppi, en þegar móðir hennar andaðist rúmri viku síðar var hún tekin í fóstur af ábúendum á bænum og ólst upp hjá þeim. Halldóra stundaði nám við Kvennaskólann á Blönduósi veturinn 1947-1948. Stuttu síðar kynntist hún Ólafi Þórhallssyni á Syðri-Ánastöðum á Vatnsnesi, sem síðar varð skólastjóri barnaskólans á Hvammstanga, en hann stundaði jafnfram búskap í tvíbýli við foreldra sína, lagði stund á veiðar og skrifaði um liðna tíma. 

Árið 1983 brugðu Halldóra og Ólafur búi vegna veikinda í fjölskyldunni og fluttu til Reykjavíkur. Það varð þeim mikið áfall að missa tvo syni sína með stuttu millibili og sú reynsla setti mark sitt á þau bæði. Halldóra hafði alla tíð yndi af tónlist og söng með Litlakór í Neskirkju á meðan heilsan leyfði. Hún var lagvirk og listfeng og fann upp á því að búa til bréfbáta til siglingar í baðkerinu er hún baðaði barnabörn sín. Níels Hafstein, þáverandi formaður Nýlistasafnsins, fékk veður af þessu og pantaði hjá henni nokkra báta á sýninguna Í hjartans einlægni sem haldin var 1991. Í þessum bréfbátum speglast daglegt líf á Vatnsnesi: flutningur á ull í kaupstað, fiskveiðar í soðið, flutningur á rekavið af Ströndum og innkaup til heimilisins. Verk Halldóru voru síðar kynnt í Safnasafninu og á sýningu þess Yfir Bjartsýnisbrúna í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, 2003.

Exit mobile version