Skip to content

Guðjón R. Sigurðsson

Guðjón [1903-1991] fæddist á Hömrum í Mýrarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu, en þegar hann var hálfsmánaðar gamall fluttu foreldrar hans til Kanada og skildu hann eftir í fóstri hjá ömmu sinni og afa. Þegar þeirra naut ekki lengur við dvaldi hann hjá móðursystur sinni og eiginmanni hennar, en um tvítugt barst honum bréf frá föðurnum sem hvatti hann til að koma til sín og sendi honum fé fyrir fargjaldinu. 

Í Kanada stundaði Guðjón fiskveiðar í vötnum og dýraveiðar í skógum, bjó langtímum saman í bjálkakofum fjarri byggð með veiðifélögum, eða einn með hundum sínum. Um tíma vann hann við skógarhögg og ýmis byggingar- og smíðaverkefni, reisti m.a. turn fyrir lyftubúnað í gullnámu í Yellowknive, norðan Stóra-Þrælavatns, innréttaði kirkju í Vancouver og stórhýsi í Klettafjöllum, reisti skóla og hermannabústaði, vann við húsgagnasmíði og báta- og skipaviðgerðir. 

Á fjölbreyttum lífsferli í Kanada kynntist Guðjón mönnum af ýmsum uppruna, t. d. frumbyggjum Norður-Ameríku, Asíubúum og Norðurlandabúum, og lærði tungumál þeirra að meira eða minna leyti. Rúmlega sjötugur sneri Guðjón aftur til Íslands, reisti sér lítinn bæ neðan hamra á Fagurhólsmýri og tálgaði til styttur sér til ánægju. Verk eftir Guðjón voru á sýningunni Í hjartans einlægni sem sett var upp í Nýlistasafninu 1991, voru síðar kynnt í Safnasafninu og á sýningu þess í Korundi-safninu, Rovaniemi í Finnlandi 2013.

Exit mobile version