Skip to content

Björn Líndal Guðmundsson

Björn Líndal [1906-1994] er rótgróinn Húnvetningur, fæddur að Laufási í Víðidal. Hann langaði sem ungur maður að læra til smiðs, en gat ekki látið þann draum rætast. Björn var meðal annars í vinnumennsku hjá föður sínum, eða á hans vegum hjá öðrum til 1940, en keypti þá jörð og stundaði hefðbundinn búskap til 75 ára aldurs. 

Eftir það flutti hann á sjúkrahúsið á Hvammstanga, en vildi vera sjálfs sín og keypti árið 1990 lítinn bæ handan götunnar. Þar byrjaði hann að saga út karla og konur, yfirleitt pör, sem hann seldi eða gaf eftir aðstæðum. Helsta einkenni mannamynda Björns er barnslegt útlit, opinn og hreinskilinn andlitssvipur, einfalt snið og hófsöm litanotkun. 

Þegar Björn hafði gert lítinn hóp karla og kvenna og stillt þeim upp á hillu hjá sér, kvörtuðu kvenfélagskonur sem heimsóttu hann undan því að fólkið hans væri með allt of langa hálsa og að hann þyrfti að mála það í fjörlegri litum. Björn bar þetta álitaefni undir stofnendur Safnasafnsins sem ráðlögðu honum að hafa alla afskiptasemi að engu og skapa samkvæmt eigin hugmyndum – varð hann feginn þeirri hvatningu. 

Þessa fyrstu hillubúa keypti Safnasafnið af Birni og smám saman fjölgaði í hópnum, því á næstu árum gaf Björn safninu fleiri verk til viðbótar. Verk Björns komu fyrst fyrir augu almennings á sýningunni Í hjartans einlægni, sem sett var upp í Nýlistasafninu 1991. Þau hafa margoft verið kynnt í Safnasafninu, voru á sýningu þess Yfir Bjartsýnisbrúna í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi 2003, og á sýningu úr safneign Safnasafnsins í Korundi-safninu, Rovaniemi í Finnlandi 2013. 

Exit mobile version