Skip to content

Að búa eitthvað skringilegt til / To Make Something Strange

Ókunnir höfundar / Unknown artists

Á grænlensku eru orðin „eqqumiitsuliorneq“ og „pinngorartitsineq“ notuð yfir hugtakið list. Bein þýðing væri að búa til eitthvað sem lítur skringilega út og að skapa stöðugt. Gjöfin ber sannarlega vitni um strauma sköpunarinnar, litlar verur eru skornar í bein, horn og við eða meitlaðar í stein; menn við störf, konur með börn, trommuleikarar, dýr, bátar og veiðifæri og litríkur perlusaumur prýða sýninguna og nokkrir nytjahlutir í bland. Þessu safni er stillt upp til að næra augað og veita innsýn í ímyndunarafl og listfengi nágranna okkar í vestri.

Gripirnir á sýningunni eru úr safni Valtýs Péturssonar (1919–1988) listmálara og Herdísar Vigfúsdóttur (1925–2011) kennara. Hjónin söfnuðu þeim þegar þau dvöldu á Grænlandi á tímabilinu 1963–1983. Safnasafnið fékk þá að gjöf árið 2014. 

Flestir gripanna eru verur, t.a.m. mannsmynd með hákarlshöfuð, eða rostungur og maður í einni veru. Þessar verur nefnast túpilak. Þær eiga lítið skylt við upprunalega túpilaka sem virðast hafa þjónað hættulegum tilgangi, en enginn þeirra hefur nokkru sinni fundist. Evrópskir landkönnuðir sem komu til Grænlands í lok 19. aldar heyrðu sögur af þeim, en fólkið gat ekki sýnt þeim hvernig þeir litu út. Þess vegna voru gerðar eftirmyndir til útskýringar og voru þær úr beinum, rekaviði, þangi, snæri og skinni og líkar þeim upprunalegu. Þessar fígúrur þróuðust með tímanum í það sem við þekkjum í dag sem túpilak. Það varð síðan heimilisiðnaður í Ammassalik og víðar að skera út þessar verur og með tímanum breyttust fígúrurnar og tengdust goðsagna- og þjóðsagnapersónum. Frá miðri 20. öld jókst fjölbreytnin og algengastir eru gripir sem sýna að hluta til mannsmynd og að hluta dýr. 

Útskurðurinn er listilega gerður og mismunandi eftir svæðum. Stærstur hluti gripanna í eigu Safnasafnsins er eftir óþekkta höfunda, t.a.m. er aðeins einn túpilak nafngreindur og er hann eftir Knut Kristjansen frá Godhavn á Vestur-Grænlandi. Þá hafa sumir listamenn skorið út í sápustein eða meitlað til stein, nokkrir rist nafn sitt neðan á gripina. Það er þó mislæsilegt, Karl K. er einn og Karl Petrusen er annar sem vel er hægt að greina. Fáeinir gripir eru merktir stöðunum þar sem þeir voru gerðir. 

Ekki er perlusaumurinn síðri, en perlur komu til Grænlands með Evrópubúum á átjándu og nítjándu öld. Grænlendingar fengu perlur í vöruskiptum og konur byrjuðu að þróa það sem nú er þekkt sem sérstakur og undurfagur þjóðbúningur grænlenskra kvenna. Perlusauminn höfðu erfingjar Valtýs og Herdísar áður fært Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi, en hluti gjafarinnar kom þaðan til Safnasafnsins skv. gjafabréfi árið 2017.

Fáeinir nytjahlutir eru einnig til sýnis, sumir kunnuglegir eins og hnífar og lýsislampar og aðrir minna þekktir eins og asaloq, rekki til að hafa á kajak sem reipið fyrir spjót eða skutul hvílir á.

Sýningin er ekki síst sett upp til að skoða og endurskrá þessar góðu gjafir frá 2014 og 2017. Ef gestir þekkja til gripa má gjarnan koma upplýsingum til starfsfólks safnsins, allur fróðleikur er vel þeginn. Við þökkum starfsfólki Þjóðminjasafnsins og Háskólans í Nuuk fyrir greið svör við fyrirspurnum okkar við gerð sýningarinnar.

/

Miðrými / Middle Room 2025
Sýningargerð / Curator Gunnhildur Walsh Hauksdóttir

Exit mobile version