Skip to content

Verslun Ásgeirs G. Gunnlaugssonar & Co / Textíldeild Safnasafnsins

Vefnaðarvöruverslun Ásgeirs G. Gunnlaugssonar & Co var í Austurstræti í Reykjavík og í eigu sömu fjölskyldu allt frá 1907 til 2006, þegar hún var lögð niður. Í dag eru innréttingarnar notaðar sem umgjörð um sýningar tengdar textíl, hannyrðum og handverkshefðum.

Magnhildur Sigurðardóttir hóf söfnun sína á textíl löngu áður en þau Níels Hafstein stofnuðu Safnasafnið árið 1995 og hefur síðan bætt við eftir því sem aðstæður leyfa. Hún leitaði fanga víða, fyrst í Kolaportinu, síðan hjá Rauða krossinum og Hjálpræðishernum og öðrum sem selja notaða og endurnýtanlega gripi. Því miður reyndist sjaldan unnt að fá upplýsingar um höfunda þeirra þótt sérstaklega væri leitað eftir því hjá einstaklingum sem seldu úr dánarbúum, það var eins og fólk ætti erfitt með að gangast við því að láta gripi frá sér, handverk mömmu og ömmu, og sagðist ekki vita önnur deili á þeim en að þeir hefðu verið keyptir og notaðir á heimilinu. Það viðhorf er skiljanlegt að nokkru leyti en bagalegt vegna skráningar á sögu gripanna, ekki síst þegar litið er til þeirrar staðreyndar að listsköpun kvenna í nytjahlutum hafði þá um áratugaskeið verið litin hornauga og ekki átt upp á pallborðið þegar settar voru upp sýningar. Hér er ekki eingöngu við karlmenn að sakast, menntaðar textílkonur tóku þann pól í hæðina að ekki væri ástæða til að flagga þessum gripum umfram venju.

Á þessu varð veruleg breyting er Safnasafnið hóf rekstur sinn í Þinghúsinu á Svalbarðseyri, gefin var út hljóðlát yfirlýsing með sérstakri sýningu á vefnaði og útsaumi þar sem nytjaþættinum var hafnað en listfengni höfundanna dregin fram, stólasessur og teppi, áklæði, dúkar og óhreinatausposar urðu að sjálfstæðum listaverkum, komið fyrir eins og málverkum og teikningum og gestum bent á þátt þeirra í þróunarsögu íslenskrar myndlistar með tilvísunum í eign Þjóðminjasafnsins, byggða- og minjasafna, en um leið látin uppi sú von að verk innan vévbanda þeirra fengju uppreisn æru og litið yrði á þau frá öðru sjónarhorni en nytjagildisins. Síðan þá hafa mörg verk verið gefin til safnsins og eru þau af margsvíslegum toga til viðbótar því sem aður hefur verið talið, borðar og bönd, kragar, öskupokar, vasar, klútar og slæður, handþurrkur og hylki utan um þær. Þá vert að nefna eldri og yngri þjóðbúninga, þar á meðal eftir Magnhildi, peysuföt, tvo upphluti, faldbúning, kyrtil og skrautbúning, suma með silfri sem hún smíðaði á verkstæði Júlíu Þrastardóttur á Akureyri.

Veturinn 2015-2016 fór fram rannsókn á fjölda verka í textíldeild safnsins sem þær Magnhildur og Bryndís Símonardóttir önnuðust með aðstoð Jennýjar Karlsdóttur, þær höfðu til hliðsjónar skólavinnubækur, handbækur, yfirlitsrit og upplýsingar á netinu. Tilefnið var væntanleg sýning í Norðursölum og útgáfa Sýnisbókar safneignar II, hannyrðir, þar sem fjallað er um verk eftir ókunnar konur. Síðar bárust safninu að gjöf vefstykki eftir Jóhönnu Jóhannsdóttur og vinnubækur sem hún bjó til á námsárum sínum í Osló um miðja síðustu öld. Konur um allt land hafa oftsinnis samband og vilja gefa það sem þær hafa sjálfar búið til eða varðveitt sem ættargripi formæðra sinna og er mikill fengur að framlagi þeirra.

Síðast liðinn vetur var meirihluti textíleignarinnar rannsakaður, mældur og greindur, myndaður og máltekinn og skráður með ýmsum öðrum upplýsingum, síðan var öllum gripunum pakkað inn í silkipappír og komið fyrir í stórum sýrufríum öskjum. Verkið unnu Bryndís og Magnhildur og fengu tímabundna aðstoð frá Jennýju, Inger Norðdahl Jensen og Sigríði Jónsdóttur.

Um gjöf Jennýjar Karlsdóttur á 2.500 munum, skráðum af Bryndísi, sem hún gaf safninu 2023, er fjallað um hér.