Skip to content

Kiko Korriro stofa

Þórður Guðmundur Valdimarsson (1922- 2002) fæddist og ólst upp í Reykjavík. Hann lagði stund á nám í þjóðréttarfræði í University of Southern California í Los Angeles í Bandaríkjunum 1945-1949 en hélt síðan til framhaldsnáms við Sorbonne Université í París 1949-1953. Á þessum mótunarárum fékk hann aukinn áhuga á myndsköpun sem varð æ fyrirferðarmeiri í lífi hans. Þórður var þó orðinn rúmlega sextugur þegar fyrsta sýning hans var sett upp í Listmunahúsinu í Reykjavík árið 1983. Vakti hún mikla athygli fyrir erótík og fjörlega litanotkun. Þórður tók fljótlega upp listamannsnafnið Kiko Korriro. Hann vann í ýmis efni, þó teikningar hans séu mestar að vöxtum og sýna oft fjölmörg tilbrigði við sama yrkisefni. Árið 2015 gaf fjölskylda Þórðar Safnasafninu meginhluta ævistarfs hans, um 120.000 verk. Var strax árið 2016 sett upp sýning sem sýndi umfang þessarar áhugaverðu nýju safneignar.