Stofa Gígju G. Thoroddsen









Gígja Guðfinna Thoroddsen, eða Gía sem er listamannsnafnið hennar býr og starfar í Reykjavík. Gía stundaði nám hjá Hring Jóhannessyni, listmálara í Myndlistaskóla Reykjavíkur 1975, Vallekille lýðháskólanum í Danmörku 1975 og sótti þriggja mánaða teikninámskeið í Árhúsum, Danmörku 1976 og leiklist hjá Helga Skúlasyni, leikara 1977.
Gígja hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Verk hennar eru í eigu aðila líkt og Safnasafnsins, Landspítalans, Krabbameinsfélagsins, Friðarseturins Höfða og fyrrum og núverandi borgarstjóra í Reykjavík. Hún sýndi sumarið 2016 á Safnasafninu á Svalbarðsströnd og hlutu verk hennar mikið lof.
Verk Gíu hafa sterka skírskotun í listasöguna, samtímann og samfélagið. Mörg verka hennar byggja á hennar eigin reynslu að vera kona og þess að vera notandi geðheilbrigðiskerfisins. Hún gerir málverk og teikningar með fjölbreyttu myndefni, m.a. af þekktu fólki úr samtímanum og mannkynssögunni og tekst á við heimspekileg málefni. Gía notast við óhefðbundna liti í málverkum sínum á borð við gull, silfur og kopar.