
Blómin í safninu
Brot úr viðtali við Magnhildi Sigurðardóttur, einum af stofnendum Safnasafnsins
Sumariðhúsið og garðurinn 3.2020 – Texti: Snæfríður Ingadóttir
Safnasafnið á Svalbarðsströnd í Eyjafirði er án efa blómlegasta listasafn á Íslandi, þó það líti ekki út fyrir að vera það við fyrstu sýn. Á völdum stöðum í húsunum þremur er fjöldi plantna.
Hjónin Níels Hafstein og Magnhildur Sigurðardóttir stofnuðu safnið en sérstaða þess hefur alla tíð verið sú að gera alþýðulistinni hátt undir höfði um leið og það safnar verkum eftir lærða listamenn og sýnir þau. Þó flesir þeir sem sækja safnið heim komi þangað vegna listaverkanna þá vekja blómin ekki síður athygli. “Jú, það eru nokkrir fastagestir sem koma hingað eingöngu vegna blómanna,” viðurkennir Magnhildur en bætir við; “Þau eiga ekki að taka neitt frá myndlistinni, en ég veit að þau gleðja marga.”
Henni telst til að í húsunum þremur séu rúmlega 80 pottar. “Þetta eru mest megnis svokölluð ömmublóm, stofutegundir sem voru vinsælar í æsku minni. Ég veit ekki hvort að það er meðvitað eða ómeðvitað að ég laðast að þeim. Ég á ekki margar tegundir en ég hef gaman af uppstillingum með endurtekningum til að fá meiri flæði í litina,” segir Magnhildur og vísar þar til þess að í blómaskálanum er nokkrum pottum af sömu tegund stillt upp saman.
Bjargar stofublómum æskunnar
Fljúgandi diskur, pelargónía, stofugleði, sýrlandsrós og pálsjurt eru dæmi um þær tegundir sem finnast á safninu eða með öðrum orðum orðum tegundir sem ekki sjást á heimilum ungu kynslóðarinnar þar sem þykkblöðungar og grænar tegundir eru allrsáðandi samkvæmt ríkjandi innanhússtísku. “Ég er frekar með blómstrandi tegundir. Það má kannski segja að þetta sé ákveðið verndunarstarf því þessar tegundir finnast ekki svo víða lengur. Ég er að bjarga þeim.” Magnhildur segist lengi hafa haft áhuga á ræktun en eftir að þau hjónin fluttu frá Reykjavík norður í land 1997 þá fjölgaði blómapottunum verulega. “Unnur Ágústsdóttir, móðir mín, ræktaði mikið af blómum og Helga Jónsdóttir amma mín, en höfðu þær báðar græna fingur” segir Magnhildur. Æskuheimilið var bærinn Mörk, rétt norðan við Hvammstanga. “Þar var mikið af rósum, pelargóníum og dalíum. Ég man að amma mín átti hortensíu sem ég held að hafi ekki verið algengt á þeim tíma.”
Blómin í safninu
Blómin í Safnasafninu hafa komið til Magnhildar eftir ýmsum leiðum. Vinkonur hennar hafa fært henni mörg þeirra og eins hafa ókunnugir gefið safninu nokkur. “Þessar hawaiirósir komu frá mikilli blómakonu á Hvammstanga,” segir Magnhildur og bendir á tvær stórar miklar hawaiirósir, aðrar bleika og hina gula. “Þær fóru í fýlu við flutninginn norður og vildu lítið gleðja okkur fyrstu árin, þurftu aðlögun.” Hawairósirnar hafa sannarlega jafnað sig og blómstra sem aldrei fyrr, eins og reyndar öll blómin á safninu sem flest launa uppeldið með fögrum litum. “Þessar bleiku pelagóníur fékk ég frá konu á Djúpavogi sem á mjög skemmtilegt safn af þeim í mörgum litum. Hún kom eitt haustið með fáeina liti til mín en því miður kom ég bara til einum, laxableikum, sen á nú fleiri tilbrigði,” segir Magnhildur. Engum dylst að blómin hjá henni eru sérlega ræktarleg en galdurinn á bak við það segir hún að liggi í dekri við þau öll.
↓











