
Saga verslunarinnar
Ásgeir Guðjón Gunnlaugsson [1879-1956] var borinn og barnfæddur Reykvíkingur, en foreldrar hans voru Margrét Jónsdóttir og Gunnlaugur Pétursson bæjarfulltrúi. Kona Ásgeirs var Ingunn Ólafsdóttir frá Mýrarhúsum á Seltjarnarnesi (1881-1960). Börn þeirra: Anna gift Ingólfi Árnasyni, Gunnlaugur kvæntur Valgerði Jónu Andrésdóttur, Ólafur ókvæntur, Ásgeir Ingi sem dó eftir 1 og 1/2 dag, og Margrét gift Hersteini Pálssyni. Árið 1906 var afar viðburðarríkt hjá Ingunni og Ásgeiri, þau giftu þau sig, eignuðust fyrsta barnið og fluttu í hús sitt á Ránargötu 28.
Sem ungur maður vann Ásgeir mörg ár í Verslun Björns Kristjánssonar en var ákveðinn í að standa á eigin fótum. Árið 1907 stofnaði hann vefnaðarvöruverslun í leiguhúsnæði í Austurstræti 1 ásamt tveimur öðrum, en keypti fljótlega hluti þeirra. Þótti mikill kjarkur að opna verslun í þar því Hafnarstræti var þá aðalverslunargatan, en Ásgeir var af þeirri kynslóð er tók við af frumherjunum er hófu viðreisn í íslensku athafnalífi á síðari hluta 19. aldar og bauð því aðstæðunum byrginn. Verslunin var stofnuð með það í huga að hafa til sölu það nauðsynlegasta sem heimilin þurftu en fjölbreytnin jókst smátt og smátt eftir því sem efni leyfðu. Voru seldar vörur frá Englandi, Frakklandi, Danmörku, Þýskalandi, Ungverjalandi og Póllandi, sumt flutti Ásgeir inn beint en keypti annað af íslenskum heildsölum.
Minnisstæðar eru auglýsingar um að ný sending væri komin af: hinu eftirsótta franska klæði sem var notað í íslenskan búning og svipað efni var selt í matrósaföt, ásamt kraga, og voru piltar oft fermdir í þeim. Þá var ekki algengt að tilbúinn nærfatnaður barna sæist í búðum, því flest var saumað og prjónað heima. Náttkjólar voru notaðir á drengi sem telpur fyrstu mánuðina og þótti því nauðsynlegt að hafa til flónel, léreft, blúndur og bendla. Auðvitað var allt selt sem tilheyrði rúmfatnaði, damask, léreft, fiður og hálfdúnn, dún- og fiðurhelt léreft og allar hugsanlegar smávörur. Handklæði voru yfirleitt í úrvali og borðdúkar, bæði matar- og kaffidúkar. Smábarna-fatnaður var seldur í versluninni, kjólar, buxur, peysur og húfur. Þetta voru óskagjafir telpna sem áttu stórar brúður. Einnig voru til útlendir sokkar á telpur úr fíngerðri ull og á þá voru settar tvær tölur efst og þeir festir með sokkaböndum í tölur á kotum sem þær gengu í. Undirkjólar telpna hétu klukkur, yfirleitt prjónaðar eða heklaðar heima, en þó voru konur sem prjónuðu þær listavel með vélum. Alltaf var notað mjög fíngert ullargarn í slíkar flíkur. Síðar telpnabuxur þekktust ekki, hvorki til að nota að sumri né vetri.
Fyrir kvenfólk voru til sokkar úr bómull og silki, einnig undirfatnaður og náttkjólar úr bómull og prjónasilki. Efni var allt frá sirsi og tvisti í morgunkjóla og sloppa upp í fínustu efni í kvöld- og ballkjóla. Þá voru seld kápuefni sem var saumað úr heima, hjá saumakonum eða klæðskerum. Fyrir karlmenn fengust sokkar, bómullarnærföt, náttföt, skyrtur og slifsi og jakkaföt, jafnvel enskar húfur. Sérstaklega var hugsað um sjómenn, fyrir þá var til ullarfatnaður, þykkir sokkar, nærföt og svokallaðar duggarapeysur, allt úr ull. Í versluninni fékkst því allt nema skór og vatnsheldur klæðnaður.
Guðrún J. Straumfjörð, sem starfaði við verslunina um þetta leyti, sagði að Ásgeir hefði aldrei getað neitað neinum. Eitt sinn fyrir jól þurfti hann að skreppa frá, en sagði við afgreiðslustúlkurnar, að ef Oddur á Skaganum, sem bjó á Herkastalanum, kæmi á meðan, þá mætti hann fá allan þann fatnað sem hann þyrfti og ætti ekkert að borga. Guðrún sagði aðra sögu: Hún var að ljúka vinnu sinni á Þorláksmessukvöldi og læsa dyrunum er Kristján frá Djúpalæk og Höskuldur Björnsson listmálari komu upp tröppurnar og báðu hana með fögrum orðum að selja sér sitt hvort slifsið. Hún gat ekki neitað þeim svona rétt fyrir jólin og sneri við inn. Eitthvað voru þeir óákveðnir og báðu Guðrúnu að velja þau og aðstoða þá við að setja þau á sig. Stuttu eftir hitti hún Kristján á götu, minntist hann þá á slifsakaupin og kastaði fram þessari vísu: Hefur dapra hugi glatt, hýr í dagsins önnum, kona sú er bestu batt bindin listamönnum. Aðrar vörur en þær sem hér hafa verið taldar var reynt að hafa að staðaldri, en nýjar komu svo af og til á markað; um 1930-32 fengust gegnsæjar plastregn-kápur á kvenfólk í ýmsum litum, nokkru síðar herraregnkápur, einnig úr plasti, aðallega gráar, og voru þær mikið keyptar. Ef nýtísku-legar peysur fengust, þá var mikil sala í þeim. Annars var lítið um tilbúinn fatnað á kvenfólk á þessum árum, hvorki kjóla né kápur. 1930-40 voru kreppuár og atvinnuleysi, mikið var undir síldinni komið og ef vel veiddist gat það bjargað veltunni. 1935 neyddist Ásgeir til að segja upp starfsstúlku í fyrsta skipti, vegna innflutningshaftanna, eins og hann segir í meðmælabréfi sem hann lét hana fá. Um sama leyti ákváðu Kaupmannasamtökin að menn tækju sig saman og hættu að gefa kúnnunum afslátt, eins og þá tíðkaðist. Ásgeir átti erfitt með þetta og reyndi að vera sem minnst við í versluninni, en þá hringdu frúrnar heim til hans því þær vissu vel að Ásgeir gat varla synjað þeim um úttekt. Stríðsárin voru afar slæm og þá kom fyrir að heildsalar neituðu kaupmönnum um pantanir nema þeir tækju illseljanlega vöru með. Ásgeir átti líka bágt með að sætta sig við þetta, hann treysti sér ekki til að afgreiða viðskiptavin með vöru sem hann gat ekki mælt með. En það mynduðust oft biðraðir ef von var á efnum í kjóla t. d. fyrir fermingar eða hátíðir, einnig prjónagarni eða einhverju álíka eftirsóknarverðu sem fólk hafði beðið eftir í langan tíma
Þannig gekk verslunin fyrir sig, slæmir tímar, en góðir inn á milli. Árið 1946 kom Stefán Jóhann Stefánsson hrl. að máli við Ásgeir og bauð honum húsið í Austurstræti 1 til sölu fyrir hönd erfingja dánarbús Kristínar Ólafsdóttur frá Nesi. Þar sem Ásgeir hafði fyrir nokkru sett upp nýjar innréttingar í versluninni, svo hún yrði nýtískulegri, þá sló hann til og keypti þó aðstæður væru óheppilegar. Árið 1952 veiktist Ásgeir alvarlega og þegar auðsætt varð að hann næði ekki heilsu aftur, fór fjölskyldan að íhuga að selja eignina. Árið 1955 keypti Reykjavík húsið en seljendur fengu leyfi til að nýta það í fimm ár til viðbótar. Gunnlaugur sonur Ásgeirs [1909-1975] og Valgerður Jóna Andrésdóttir eiginkona hans [1919-2010] tóku við versluninni eftir lát Ásgeirs 1956 en þau höfðu bæði starfað í henni um langt árabil. Stuttu síðar fluttu þau verslunina í Stórholt 1, en í lokin var hún til húsa í Skipholti 9, starfrækt af Valgerði einni, því Gunnlaugur var þá látinn. Vorið 2006 hætti Valgerður rekstrinum og hafði þá sinnt honum í 50 ár, að viðbættum þeim tíma sem hún vann tengdaföður sínum. Hún seldi Safnasafninu innréttingarnar 2006 og hefur verslunin verið endurgerð í líkum anda og ríkti áður, en þó frekar undir formerkjum myndlistar en minjaverndar, sem textíldeild með litilum sérsýningum
Þegar Verslun Ásgeirs G. Gunnlaugssonar & Co hætti, þá var hún líklega eina vefnaðarvöruverslunin í Reykjavík sem hafði verið rekin undir sama nafni í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi, eða í 99 ár samfleytt
Margrét Ásgeirsdóttir, Reykjavík
↓
