Skip to content

Erla Björk Sigmundsdóttir

Erla Björk Sigmundsdóttir fæddist árið 1973 og býr hún og starfar á Sólheimum í Grímsnesi. Erla er fjölhæf listakona sem ásamt myndlistinni stundar tónlistarnám, er í bjöllukór og starfar með leikfélagi Sólheima sem setur upp leiksýningar þar á hverju ári. Með leikfélaginu hefur hún líka komið fram í Borgarleikhúsinu, Þjóðleikhúsinu og á leiklistarhátíð í Madríd á Spáni

Erla vinnur markvisst að list sinni á vefstofu Sólheima og hefur gert það frá árinu 2010. Útsaumsverk hennar njóta athygli og hrifningar og hefur henni verið boðið að taka þátt í fjölmörgum sýningum, meðal annars á listahátíðinni List án landamæra í Þjóðminjasafninu og í Norræna húsinu, ásamt því að verk hennar hafa prýtt dagatal Þroskahjálpar sem ár hvert fær valinkunna listamenn til liðs við sig.

Erla sýndi verk sín á Safnasafninu sumarið 2016 en það ár var hún einnig listamaður Listahátíðarinnar List án landamæra. Safnasafnið á xxx verk eftir Erlu.

Verk Erlu endurspegla kraftinn sem í henni býr, hún tjáir sig í ólíkum formum og listsköpun hennar býr yfir sterkum persónulegum stíl. Í verkum sínum hleður Erla garninu upp beggja vegna strigans og vekur það furðu áhorfenda hvernig hún fer að því að koma nálinni og spottanum í gegnum hnausþykk efnin. Verk hennar eru annað hvort fígúratíf eða óhlutbundin formgerð, en ætíð einlæg, kraftmikil, tjáningarík og fögur.