Svava Skúladóttir



Svava [1909-2005] fæddist á Ísafirði 1909 og ólst þar upp uns móðir hennar andaðist 1937, þá flutti hún suður til Amalíu systur sinnar og eiginmanns hennar Halls Hallssonar, tannlæknis í Reykjavík, og vann á heimili þeirra meðal annars við uppeldi barna þeirra. Árið 1972 fékk hún íbúð til afnota hjá Öryrkjabandalagi Íslands í Hátúni 10a og undi sér þar vel.
Svava byrjaði fljótlega að stunda verkstæði hjá félagsstarfi eldri borgara í Norðurbrún 1, og þar vakti hún fljótt athygli kennara sinna fyrir sérstaka nálgun að efnum og aðferðum. Fyrstu árin leiðbeindi Valgerður Briem henni um meðferð vatnslita, síðan tók Helga Pálína Brynjólfsdóttir við og sagaði til litla viðarkubba eftir teikningum hennar, þekktar kirkjur og burstabæi, en einnig virkisbrýr og kastala. Undir handleiðslu Sigríðar Ágústsdóttur bjó Svava til tjáningarrík leirverk af miklum áhuga og krafti, svo sem konur með börn á höfðinu, peysufatafrúr, kaffistell, könnur og skálar, sem hrifu fólk vegna barnslegrar einlægni og útlits.
Stofnendur Safnasafnsins sáu verk Svövu fyrir tilviljun, keyptu allt sem þeir gátu og skipulögðu sýningar á verkum hennar í Nýlistasafninu 1991 og 1997. Vöktu þær mikla hrifningu meðal myndlistarmanna. Síðar gaf Sigríður Ágústsdóttir Safnasafninu fjölda verka sem hún hafði fengið hjá Svövu vinkonu sinni, en meginþorri verka Svövu er varðveittur í Safnasafninu.