Skip to content

Sæmundur Valdimarsson

Sæmundur [1918-2006] fæddist á Krossi á Barðaströnd. Hann starfaði til sjós og lands fram til þrítugs en fluttist til Reykjavíkur 1948 og vann lengst af í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Á efri árum hóf hann að höggva og tálga út viðardrumba, aðallega konur, og ef karlarnir seldust ekki skipti hann um kyn á þeim. Sæmundur sótti rekavið í verk sín suður með sjó og víðar, ók þeim heim og setti í tjald til þurrkunar, bar síðan inn í bílskúr þar sem hann töfraði úr þeim það sem honum þótti búa innra með hverjum trjábol. 

Verk hans eru afar eftirsótt og má líkja þeim við stöðutákn á heimilum manna. Þau eru fjölbreytt að gerð, lítil og stór, sum skreytt með málmhári eða hattlíki úr spónum, sagi og lími, sem hann litaði. Það sem er einna eftirtektarverðast við styttur Sæmundar, er að hann hefur þær handleggjalausar, sker þær ekki út úr bolnum eða festir á hann, og þar af leiðandi eru þær grannar og rennilegar. Stundum hafa stytturnar mittisband úr hlýra- eða steinbítsroði, en augnbrúnir eru úr morgunfrúm og brárnar úr svörtum kústhárum. Sæmundur tók þátt í fyrstu sýningunni um alþýðulist á Íslandi sem haldin var í Gallery SÚM og Ásmundarsal 1974, að frumkvæði Guðbergs Bergssonar rithöfundar, en hélt síðan margar einkasýningar og hafa verk hans einnig verið margoft kynnt í Safnasafninu. Sæmundur lét eftir sig mikið æviverk, ríflega 400 styttur.