Skip to content

Römm er sú taug / Strong is the bond

Þorbjörg Halldórsdóttir (1875-1979)

Þorbjörg Halldórsdóttir fæddist 21. janúar 1875 í Strandarhjáleigu í Vestur – Landeyjum í Rangárvallasýslu og kenndi sig alltaf við þann stað. Hún var lengst af vinnukona og vann almenn bústörf, en um sjötugt þegar bústörf voru að baki tók hún að sauma út myndir. Mynstrin skapaði hún sjálf og með breytilegum útsaumssporum og litum öðluðust myndverkin dýpt og mismunandi áferðir. 

Útsaumsverk Þorbjargar eru fjölmörg og má telja að þau hafi verið nýmæli í listsköpun á Íslandi. Strandarhjáleiga var algengasta myndefnið en hún gerði ekki færri en sex verk sem sýna húsakynni hennar kæra æskuheimilis. Elsta þekkta verk Þorbjargar er mynd af Ölfusárbrúnni sem var reist 1945 en verkið er talið saumað 1946. Síðasta verk hennar er frá 1975, þegar hún var 100 ára, en í ár eru 150 ár liðin frá fæðingu hennar. Þorbjörg lést á Hrafnistu í Reykjavík 4. apríl 1979, 104 ára gömul.

/

Austursalur / East Room 2025
Sýningargerð / Curator Þórgunnur Þórsdóttir
Rannsókn og textar / Research and texts Eiríkur G. Guðmundsson

Þorbjörg Halldórsdóttir í herbergi sínu á Hrafnistu í Reykjavík 1974. Hún var þá elsti íbúinn þar. Myndin birtist í bók á þýsku um Ísland sem út kom 1975. Höfundar voru Klaus D. Francke og Hans Joachim Bonhage. Bókin heitir „Die älteste Einwohnerin des See Seemanns-Altersheims vor ihren Erinnerungsstücken.“ Island, (Atlantis Verlag, Zurich og Freiburg, 1975). Francke tók myndir en Bonhage skrifaði texta. Francke sendi Þorbjörgu myndina að gjöf og heimsótti hana síðan á Hrafnistu í kjölfarið. Ekki er vitað hvað þeim fór á milli en talið er líklegt að hann hafi þá fengið útsaumsverk hjá Þorbjörgu.