Skip to content

Ragnar Bjarnason

Ragnar Bjarnason fæddist 1909 í Öndverðarnesi í Grímsnesi var sonur hjónanna Kristínar Halldórsdóttur, áður heimasætu þar, og Bjarna Jónssonar bónda í Alviðru í Ölfusi. Hann ólst upp í Öndverðarnesi fyrstu árin hjá Halldóri Stígssyni og Þórunni Ísleifsdóttur, móðurforeldrum sínum. 1918 fluttu foreldrar hans þangað frá Reykjavík ásamt þremur systrum Ragnars og tóku við uppeldi hans og búi þar á staðnum. Alls eignuðust þau hjónin 9 börn. Ragnar gekk í farskóla en stundaði svo nám við Íþróttaskólann í Haukadal, var til heimilis í Öndverðarnesi næstu árin, við heyskap á sumrum, en fór til róðra suður með sjó á vetrum og stóð fyrir búi móður sinnar eftir að faðir hans fórst í slysi 1926. Árið 1938 flutti hann til Reykjavíkur, vann lengst af við smíðar og fékk réttindi sem húsasmiður samkvæmt ráðherrabréfi. Eiginkona Ragnars var Guðrún Guðjónsdóttir frá Hrygg í Hraungerðishreppi, börn þeirra: Guðjón Þór, Kristín Lára, Bjarni og Guðrún Björg.

Árið 1958 byrjaði Ragnar að móta listaverk úr járnbentri steinsteypu sem hann málaði og kom fyrir í garði fjölskyldunnar í Eikjuvogi 26. Þau vöktu strax athygli vegfarenda og stóð sumum stuggur af beinskeyttri tjáningu þeirra. Þau eru innblásin úr þjóðsögum og helgisögum, lýsa baráttu góðs og ills, að skemmta skrattanum. Verkin lýsa vinnulagi hverfandi sveitalífs og hispursleysi nýs tíma. Listaverk Ragnars eru með því besta og framsæknasta í íslenskri alþýðulist, þau eru reist af miklum krafti, fagmannlegri hæfni og efnisþekkingu, eru virk í rými og varla hægt að ganga framhjá þeim án þess að taka afstöðu og láta skoðun sína í ljós.

Ragnar lést árið 1977 án þess að hljóta þá viðurkenningu sem efni stóðu til, en nafn hans lifir og verk hans njóta athygli og aðdáunar; þau heitta Frelsarinn, Kölski, Leikur vorsins, Josephine Baker, Útigangsmaður, Móðurást, 2 Sláttumenn, Reiðmaður, Mjaltakona [vatnsberi], Smali, Heyband og Fósturlandsins Freyja. Verkin voru illa farin, mosavaxnin og frostsprungin eftir langa stöðu í garðinum í Eikjuvogi. Gert var við þau og reynt að fara eins nálægt upprunalegri gerð og kostur var, en litir höfðu veðrast og varð því að endurmála verkin í anda þeirra verka sem heilli voru. Síðar kom á daginn að Ragnar málaði ofan í liti með öðrum nýrri og breytti þannig ásýnd myndanna tölvuvert.