Skip to content

Hrefna Sigurðardóttir

Hrefna [1920-2015] fæddist í Laufási á Þingeyri við Dýrafjörð og gekk í Núpsskóla, þar sem faðir hennar var kennari. Hún giftist Kjartani Th. Ingimundarsyni, stýrimanni og síðar skipstjóra, og bjuggu þau fyrstu ár sín á Patreksfirði en fluttu til Reykjavíkur 1961 og áttu síðast heima í Breiðholti. 

Hrefna gaf út þrjár ljóðabækur og hélt tvær einkasýningar í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi í Reykjavík, 1993 og 2000. Einnig átti hún verk á tveimur sýningum í Safnasafninu, sem og á sýningunni Yfir Bjartsýnisbrúna í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi 2003, þar sem teflt var saman lærðum og leikum í listinni. Hrefna samdi lög, spilaði á munnhörpu, píanó og gítar og söng af sjaldheyrðri innlifun. Hún fór með hlutverk í kvikmyndinni Stella í orlofi og tók þátt í ýmsum uppfærslum á fjölbreyttum ferli. 

Verk Hrefnu falla ekki að viðteknum reglum, stefnum og stílgerðum, formin eru frjáls, myndheimurinn djúpur og magnþrunginn. Margslungið inntak verka hennar var töfrað fram í einhvers konar leiðslu; blóm, fugl, bátur eða óhlutlægar sýnir sem fela í sér hlutbundnar áherslur. Niðurskipan efnis, litir, form og línuspil bera með sér glit af margslungnum persónutöfrum Hrefnu, sótt í fjörugt hugarflug og bjartsýni á lífið og tilveruna.