Skip to content

Hjálmar Stefánsson

Hjálmar Stefánsson fæddist á Smyrlabergi á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu, sonur hjónanna Stefáns Jónssonar og Guðrúnar Kristmundsdóttur frá Melrakkadal í Húnaþingi Vestra. Hann bjó lengst af á Blönduósi, stundaði ýmis störf og byrjaði að mála á efri árum. Málverk Hjálmars eru sjálfsprottin og hafa enga fyrirmynd aðra en náttúruna sem hann þekkti og unni. Hann þvingaði hana þó aldrei inn í rómantíska stælingu, heldur lagði frekar út af henni eftir minni. Yfir þeim er barnslegur blær sem vitnar um lifandi nálægð, hvernig veðrið skekur landið, færir það úr stað og mótar nýja ásýnd. Áferð verkanna er hrjúf og hæfir myndskipaninni, gefur henni kynngimagnaða orku sem vekur ósjálfrátt viðbragð hjá næmum skoðendum þeirra. Þau eru svo sterk að þau draga athyglina að sér, eitthvað sérstakt er á sveimi sem á engan sinn líka og ber höfundinum lofsvert vitni. Smyrlaberg rís upp fyrir ofan samnefndan bæ og þar lék Hjálmar sér við huldupilt í æsku, en svo sérstæð veröld hlýtur að hafa haft áhrif og má ætla að í verkum hans leynist tilvísanir í hughrif sem mótuðu sálarlífið og þá hæfileika sem brutust út með tilþrifamiklum hætti í list hans síðar á ævinni.