Skip to content

Hildur Kristín Jakobsdóttir

Hildur fæddist á Svalbarði á Svalbarðsströnd í Eyjafirði en ólst upp á Þórshöfn á Langanesi. Að loknu gagnfræðaprófi stundaði hún nám við Håndarbejdets Fremme Skole í Kaupmannahöfn og tók síðan að sér handavinnukennslu við barnaskólann á Hvammstanga um tíma, en lengst af var hún við verslunarstörf hjá Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga. Hildur Kristín var virk í félagsstarfi Húnvetninga, hafði umsjón með barnastúkunni Vetrarblóminu í nokkur ár, sat í áfengisvarnanefnd, var einn af stofnendum Ungmennafélagsins Kormáks og gjaldkeri slysavarnadeildarinnar Káraborgar.

Árið 1954 giftist hún Gunnari Valgeiri Sigurðssyni, kaupfélagsstjóra, og eignaðist með honum þrjú börn. Síðla sumars 2000 fluttu þau hjónin til Akureyrar, en Hildur Kristín hafði greinst með Parkinsons-veiki og voru meðferðarmöguleikar við veikindum hennar meiri á Akureyri. Um þetta leyti byrjaði hún á frjálsum útsaumi, því áteiknuð mynstur voru henni ofviða, en missti fljótlega afl í hægri hendi og þurfti að draga nálina út með tönnunum. Þegar hún hafði ekki mátt til þess lengur, setti hún saman lágmyndir úr alls konar smáhlutum, málaði á pappa og rekavið. Safnasafnið keypti af Hildi 21 verk og hélt á þeim einkasýningu árið 2002. Árið 2004 voru nokkur útsaumsverka Hildar úr safneigninni valin á Alþjóðlegu textílsýninguna á Kjarvalsstöðum 2004 og á sýningu í Safnasafninu 2005, auk sýningar úr safneign Safnasafnsins í Korundi, Rovniemi í Finnlandi 2013.