Skip to content

Guðrún Bergsdóttir

Guðrún Bergsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1970 og sleit barnsskónum í Hafnarfirði. Að lokinni formlegri skólagöngu sótti hún ýmis námskeið hjá Fjölmennt símenntunar og þekkingarmiðstöð. Hún er meðlimur í Perlufestinni, sem er áhugafélag um leiklist, og hefur starfað hjá vinnustofunni Ási frá árinu 1994. 

Guðrún byrjaði að vinna að list sinni eftir þrítugt, en þá fór hún að nota nál, garn og striga á persónulegan hátt og hóf að sauma þær myndir sem hún er hvað þekktust fyrir. Áður hafði Guðrún unnið tússmyndir sem svipar um margt til útsaumsmynda hennar. Móðir hennar keypti handa henni áprentaða púðastramma í hannyrðabúð sem auðvelt var að sauma og hafði Guðrún ánægju af að sauma nokkra slíka. Eitt sinn kom hún heim með rauðan java sem vinkona hennar hafði gefið henni og fór að sauma fríhendis rendur á flötinn. Þegar javinn var búinn keypti móðir hennar meira garn og auðan stramma og Guðrún hélt áfram að þróa saumaskapinn í það sem hún er þekkt fyrir í dag og vann eftir það ekki að listsköpun með öðrum efnivið. Guðrún fór allra sinna ferða með Strætó og meðferðis hafði hún ávallt listaverkin sem hún var að vinna að þá stundina og hélt sér að verki, hvort sem það var í kaffipásu í vinnunni, í heimsókn hjá foreldrum sínum eða í strætó á leið sinni milli staða. 

Frá árinu 2000 til ársins 2018 þróaði Guðrún sérstakan stíl sem vakti aðdáun og höfðaði til fólks á ólíka vegu, en verk hennar tengjast bæði handverkshefðinni og geómetríski abstrakt list. Á þessu 18 ára tímabili bjó Guðrún til samtals 66 myndir og er úrval þeirra á sýningunni í Safnasafninu, þar á meðal fyrsta myndin sem hún saumaði út án forskriftar frá árinu 2000 og sú síðasta frá árinu 2018. Guðrún vinnur beint á strigann, spor fyrir spor, flöt fyrir flöt, án forskriftar. Verk hennar þróuðust frá beinum línum og stórum ferningum yfir í smærri og lífrænni form þar til formfestan nánast hvarf, uns hún setti einungis eitt krosssaumsspor í hverjum lit á flötinn. Í síðustu útsaumsverkum Guðrúnar iðar flöturinn af lífi og þegar rýnt er í verkin á augað á erfitt með að festa sig við einn stað. Úr fjarlægð, þegar augað greinir ekki bilið á milli sporanna, sér áhorfandinn þó útlínur forma aftur, festu innan þess sem virðist enga reglu hafa. Í horni sumra verka Guðrúnar má svo sjá vísi að næsta verki á eftir, örlitla kitlu eins og til að byggja upp eftirvæntingu. Verk Guðrúnar virðast vera úthugsuð þróun, þar sem hvert spor er í rökréttu framhaldi frá upphafi, þó hún geti ekki lýst því af hverju hún vinnur eins og hún gerir og yppir brosandi öxlum ef hún er spurð.

Verk Guðrúnar eiga einstaklega vel heima í Safnasafninu, þar sem alþýðulist mætir menntaðri nútímalist og handverkið mætir listaverkinu. Líkt og Safnasafnið ávarpa verk Guðrúnar manngerð landamæri listheimsins þar sem múrar hafa verið reistir og verk eru vegin og metin eftir ósögðum en vel þekktum reglum um gildi ólíkra verka og skapara þeirra. Guðrún Bergsdóttir hefur markað spor í listasöguna og með verkum sínum og nálgun hefur hún haft áhrif á samtímafólk sitt í listinni.