Elísabet Geirmundsdóttir


Elísabet [1915-1959] fæddist í Innbænum á Akureyri og ólst þar upp. Snemma varð ljóst að hún var gædd fjölbeyttum hæfileikum, samdi ljóð sem hrifu fólk og lög sem hún fékk nótnaskrifuð fyrir sig. Hún var sjálfmenntuð að mestu í myndlist en lét það ekki aftra sér í neinu, sótti leir upp í Hamraborgir sunnan Akureyrar, bjó til stóra skúlptúra í garði sínum, málaði myndir og formaði ýmsa hluti, meðal annars gifsafsteypur af fólki í þjóðbúningum til að afla sér tekna.
Þá bjó hún til styttur úr snjó sem vöktu athygli fjölmiðla og drógu fólk að. Árið 1989 gaf Félag kvenna í fræðastörfum, Delta Kamma Gamma, út bók um Elísabetu sem bar titilinn Listakonan í fjörunni. Þar rakti Edda Eiríksdóttir ævi Elísabetar og listsköpun í máli og myndum. Þegar Elísabet var 35 ára gömul veiktist hún og reyndist vera með æxli í heila. Hún missti sjón á öðru auga, en þrátt fyrir kvalir bar hún harm sinn í hljóði og einbeitti sér að starfi sínu og nýtti tímann vel. Þá varð hún fyrir öðru áfalli, óprúttnar konur í Reykjavík hunsuðu höfundarrétt hennar og tóku afsteypur af þjóðbúningastyttunum til að selja þar syðra og hagnast á þeim. Verk Elísabetar hafa verið kynnt í Safnasafninu og stór minningarsýning um Elísabetu var sett upp í Listasafninu á Akureyri árið 2015.