Atli Viðar Engilbertsson



Atli Viðar Engilbertsson fæddist 1961 á Árbakka við Tyrðilmýri á Snæfjallaströnd, Ísafjarðardjúpi. Fjölskyldan flutti til Hólmavíkur 1987, en þaðan fór Atli til Akureyrar árið 2000 og býr þar enn. Hann vann almenn sveitastörf, í frystihúsi og við nýbyggingar, en hefur undanfarin ár unnið að myndlist. Innan við tvítugt fór hann að hnýta skópör úr baggaböndum og netagirni, bjó til klippimyndir, skrifaði nokkrar smásögur og seldi í ljósriti, samdi rokklag á plötuna Húsið og tók þátt í N-ART, sýningu norrænna fjöllistamanna sem haldin var í Reykjavík. Þá hafa listaverk hans verið sýnd m.a. í Safnasafninu, Handverkshátíðinni á Hrafnagili, Hafnarborg og á Alþjóðlegu textílsýningunni á Kjarvalsstöðum 2004.
Atli hefur þróað sérstæðan stíl, endurvinnur efni og hefur m.a. búið til karla og konur úr bylgjupappa sem vakið hafa mikla athygli. Atli Viðar skrifar í fjölmiðla, semur tónlist, spilar á gítar, bassa og trommur. Árið 2013 var hann kjörinn listamaður hátíðarinnar Listar án landamæra og um svipað leyti var leikrit hans Skyrturnar sett á svið í Freyvangsleikhúsinu í Eyjafjarðarsveit. Verk Atla hafa verið kynnt í Safnasafninu og voru á sýningu úr safneign þess í Korundisafninu, Rovaniemi í Finnlandi 2013.