Skip to content

Ása Ketilsdóttir

Ása Ketilsdóttir fæddist árið 1935 á Ytra-Fjalli í Aðaldal, menningarheimili, þar sem íslensk ljóðahefð var í hávegum höfð með rímum, þulum, kveðskap og söng. Á bænum var símstöð og gestagangur vegna hennar. Að loknu námi í farskóla dvaldi Ása um tíma, 1950-1951, á Stóru-Tjörnum, og naut tilsagnar í teikningu hjá Aðalgeiri Halldórsssyni listmálara, en hafði lengi teiknað heima á eyðublöð fyrir símskeyti og ýmsa snepla sem lágu á lausu. Á fyrri hluta ársins 1957 nam hún við Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík, en innritaðist um haustið í Kvennaskólann á Laugum í Reykjadal, og lauk þaðan prófum 1958. Fljótlega eftir það fluttist Ása vestur í Ísafjarðardjúp, kynntist eiginmanni sínum, Halldóri Þórðarsyni, eignaðist börn og sinnti búskap, en á undanförnum árum hefur Ása snúið sér æ meira að ræktun blóma og tekist að ná fram mikilli grósku, og nýtur þar hlýnandi veðurfars og minni snjóþynglsa.

Ása Ketilsdóttir hefur alla tíð haft gaman af kveðskap, í Kvæðamannafélaginu Iðunni kynntist hún þessari fornu hefð betur, tók þátt í því að draga hana fram í dagsljósið og lagði rækt við þann arf sem hún nam á æskuslóðum. Hún orti ljóð, og árið 2012 kom út bók hennar, Svo mjúkt er grasið. Áður hafði Árnastofnun haft samband við hana vegna fyrirhugaðrar útgáfu á geisladiski um kveðskap og kom hann út 1998 undir nafninu Raddir, í umsjón Andra Snæs Magnasonar og Rósu Þorsteinsdóttur. Þá kom út geisladiskur 2010, Vappaðu með mér Vala, þar sem Ása kveður, syngur og segir sögur. Umsjón með útgáfunni höfðu Skúli Gautason og Rósa Þorsteinsdóttir fyrir Stofnun Árna Magnússonar og Strandagaldur ses. á Hólmavík. Veturinn 2011 var haldin fjölbreytt dagskrá í Gerðubergi til heiðurs Ásu Ketilsdóttur, með kynningu á gömlu teikningunum hennar, flutt erindi um hana, kveðnar rímur, dansað og sungið.

Teikningar Ásu Ketilsdóttur, sem hún gerði frá barnæsku til sextán ára aldurs, voru fyrst kynntar í Safnasafninu 2000, að frumkvæði vinkonu hennar, Jennýjar Karlsdóttur, sem þá var kennari við Valsárskóla á Svalbarðseyri. Þær eru flestar af hestum í margvíslegum stílbrigðum, oft í kátlegum stellingum, einnig af hugljúfum ævintýrum með prinsum og prinsessum. Útlínurnar er dregnar upp af miklu öryggi og fyllt upp í fleti þegar það á við. Annað einkenni teikninganna er nákvæm eftirtekt, hvernig hross haga sér og bregðast við eftir aðstæðum, og má segja að aðall þeirra sé hugkvæmni Ástu að draga fram það sem fangar augað umsvifalaust.