Skip to content

Sýningar 2023

Verk úti og í anddyri

Hávaxni bláklæddi safnvörðurinn var gerður af listahópnum Huglist árið 2009 og hefur staðið vörð um safnið á planinu allar götur síðan. Við innganginn er stækkuð ljósmynd af málverki eftir Eggert Magnússon og höggmynd á sama vegg eftir Hauk Halldórsson sem sýnir guðinn Þór lyfta Miðgarðsormi í kattarlíki.

Á hlaðinu taka fagnandi á móti gestum steypt og hvítmáluð frumskógardýr eftir Helga Valdimarsson. Elskendur í hálfa öld, tréskúlptúr eftir Aðalheiði S. Eysteinsdóttur er við innganginn ásamt verkum Ragnars Bjarnasonar frá Öndverðarnesi úr járnbentri, málaðri steinsteypu.

Verk Ragnars má einnig finna í anddyri safnsins á sýningunni Fjölskylda og vinir, sem og verk eftir Guðjón R. Sigurðsson frá Fagurhólsmýri, Helga Þórsson og nemendur í Valsárskóla á Svalbarðsströnd. Verk eftir börn í Leikskólanum Álfaborg eru sýnd í Blómaskálanum.

Við sólpall að vestan er tréskúlptúrinn Bæn eftir Hjalta Skagfjörð Jósefsson.

Samstarf

Árlega efnir Safnasafnið til samstarfs við grunn- og leikskóla á Eyjafjarðarsvæðinu. Þetta samstarf er hugsað til þess að efla listrænan áhuga og hugmyndaflug barnanna frá unga aldri, en einnig er safninu heiður og ánægja að þátttöku þeirra, lífsgleði og sköpunarkrafti.

Börniní leikskólanum Álfaborg sýna verk sín í blómastofunni inn af brúðusafninu og nemendur í Valsárskóla sýna verk sín í anddyrinu. Í ár gerðu gerðu börnin verk undir sýningarheitinu Fjölskylda og vinir.

Í garðinum heima

Við gerð verka sinna nálgaðist listamaðurinn Pálmi Kristinn Arngrímsson (1930–2015) frumeðli mannsins af hógværð og smekkvísi. Hann horfði til bernsku, sambands móður og barna og grósku og þróunar í mörgum myndum. Hann leitaði líka fanga í heimi stjórnmála og alþjóðlegra umbrota, var hugsi yfir hvers kyns öfugþróun og niðurbroti mannsandans. Þótt verk hans beri keim af myndlist fjarlægra landa, Afríku og Suður-Ameríku, þá vann hann úr þeim hughrifum með einstökum hætti og fann sinn persónulega stíl.

Þöggun – Aldrei aftur

Í ár er stillt upp verkum B. Sóleyjar Pétursdóttur inni á brúðustofu. Líf Sóleyjar hefur einkennst af einelti, útilokun, höfnun og kynferðislegu ofbeldi sem leiddi til þess að hún hóf að skaða sjálfa sig. Með því að raungera misnotkunina og nota myndlistina til að útiloka sjálfskaðann varð til kröftugur innri sem ytri heimur með fjölbreytilegum og persónulegum verkum.

Í björtum sal

Hjálmar Stefánsson (1913–1989) fæddist á Smyrlabergi á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu. Hann bjó lengst af á Blönduósi, stundaði ýmis störf og byrjaði að mála á efri árum. Málverk Hjálmars eru sjálfsprottin og hafa enga fyrirmynd aðra en náttúruna sem hann þekkti og unni. Yfir þeim er barnslegur blær sem vitnar um lifandi nálægð. Hann tjáir hvernig veðrið skekur landið, færir það úr stað og mótar nýja ásýnd.

Hönnun sýningarinnar vísar í Smyrlabergið og með því að hengja málverkin frekar þétt myndast klettabelti. Hvít umgjörð salarins er hugsuð sem nokkurs konar andrými utan um hugmynd, inntak, form, línu og lit – sem um leið afmarkar og dregur athyglina að listsköpun Hjálmars.

Kærleikurinn er kær leikur

Listsköpunin var framar öllu í lífi Nonna Ragnas (1951–2019), ljósið sem leiddi hann áfram. Hann var samkynhneigður á tíma þegar frávik voru fyrirlitin. Hann upplifði einelti, barsmíðar og einangrun en líka upprisu og breytta tíma sem hann átti þátt í að ryðja til rúms. Nonni var óvenju næmur, hann mótaðist af miklu róti og umbreytingum á seinni hluta tuttugustu aldar og upphafi þeirrar tuttugustu og fyrstu. Nýir sjónarhólar birtust, ný afstaða gagnvart skiptingu kynja, kynhneigð og hörundslit.

Nonni fékk hvergi að sýna verk sín opinberlega, listheimurinn hafnaði honum, en hann lét aldrei undan. Hann umbreytti heimkynnum sínum í Elliðaárdal í sýningar- og dansstað þar sem farið var höndum og penslum yfir hurðir, borð, veggi og loft. Verk hans sem hér eru til sýnis bera vitni um hugkvæmni og fjölbreytileika. Hver afmörkuð heild kallast á við aðra innan rýmisins, ögrar og heillar í senn.

Heimilisprýði

Í Suðurstofu eru í ár sýnd útsaumsverk eftir Sísí Ingólfsdóttur. Sísí hefur í listsköpun sinni beint sjónum að kynjahlutverkum og birtingarmyndum þeirra. Hún vinnur þvert á listform, allt frá gjörningum yfir í keramik, textaverk, handverk og innsetningar. Hér kallast verk hennar á við útsaumsverk úr safni Jennýjar Karlsdóttur og mynda áhugaverðar tengingar og samtal þeirra á milli.

Stofa Jennýjar Karlsdóttur

Jenný Karlsdóttir ánafnaði nýverið Safnasafninu veigamikilli textílgjöf og er fyrirhugað að kynna gjöf hennar á næstu árum með röð sýninga og fróðlegum fyrirlestrum. Fyrsta sýningin á textílverkum og hannyrðum úr safni Jennýjar Karlsdóttur er stillt upp í verslunarrýminu og svokallaðri Suðurstofu inn af versluninni. Ber þar fyrst að nefna faldbúning sem Jenný saumaði út með jurtalituðu garni og smíðaði hún einnig að hluta tilheyrandi silfur. Faldbúningur er elsta gerð þjóðbúnings íslenskra kvenna.

Í versluninni og Suðurstofu eru að auki sýnd svokölluð puntuhandklæði úr gjöf Jennýjar sem húsfreyjur saumuðu út til heimilisprýði og hengdu upp í eldhúsi til að hylja óhrein viskustykki.

Úr afgaungum eða öngvu

Í bókastofunni eru í ár sýnd verk Stefáns Tryggva- og Sigríðarsonar sem öll eiga það sameiginlegt að vera unnin í við, en með ólíkum hætti. Verk þessa fjölhæfa manns bera merki um þolinmæði, yfirlegu og natni.

Hágæða límtré

Klemens Hannigan er myndlistarmaður, tónlistarmaður og smiður – völundur á öllum sviðum. Hann er jafnvígur á húsgagna- og lagasmíði og hefur ríka tilfinningu fyrir myndbyggingu, efni og rými. Hann hugsar með höndunum og verkfærunum beint í efniviðinn. Hann segir verk sín meðal annars vera hug- leiðingar um form og formleysu.

Í rýminu sýnir Klemens rennda viðar- skúlptúra. Skúlptúrinn Áttatíu og átta, sem var útskriftarverk frá Listaháskólanum árið 2022, er til sýnis ásamt nýrri og minni endurgerð. Fjörtíu og átta er skúlptúr unninn sérstaklega fyrir þessa sýningu og byggir á sömu grunnhugmynd og Áttatíu og átta en hefur meiri mildi og mætti segja að sé jafnvel andhverfa hins. Grunnurinn að báðum verkum er ferhyrningur, formin verpast úr kassa, ýmist þyrnótt eða mjúk.

Millilending

Anna Hallin og Olga Bergmann sýna hér saman ný verk með sameiginlegu leiðarstefi og vísa gestum út fyrir gufuhvolfið. Þær vinna í ólíka miðla en deila áhuga á viðfangsefnum eins og þekkingarsköpun og spáskáldskap. Báðar hafa þær lengi fengist við að sýna okkur inn í nýja heima og þessi sýning er þar engin undantekning.

Anna og Olga búa og starfa í Reykjavík þar sem þær hafa vinnustofu í Fyrirbæri, mið- stöð listamanna. Þær starfa yfirleitt hvor í sínu lagi en hafa jafnframt unnið að afmörkuðum samstarfsverkefnum frá árinu 2005.

Svartigaldur

Hildur María Hansdóttir hefur lengi lagt stund á listræna ljósmyndun og beint linsu sinni að skuggamyndum í húsasundum nærri heimili þeirra hjóna. Hún nálgast við- fangsefni sín af fagurfræðilegri nákvæmni, vakandi eftirtekt og næmi fyrir fíngerðum blæbrigðum í samspili leiðandi línu og formgerða. Mismunandi sjónarhorn skapa vægi og öryggistilfinningu með því að skoða eitt og töfra annað fram.

Guðmundur Ármann er reynslumikill myndlistarmaður. Grafíkverkin sem hér eru til sýnis eru unnin undir áhrifum frá því hann vann í Slippnum á Akureyri 1973–1974. Þar voru stunduð hættuleg störf við erfiðar aðstæður sem lögðu öryggi starfsfólks í hættu. Reynslu sína skar hann út í línoleum- dúka og þrykkti myndir í misstórum upplögum. Einkenni myndanna er sparsemi og einfaldleiki forma á litlum flötum. Línur og myndbygging tengja formin saman í leik- andi flæði, og upphefja vinnuna og verka- fólkið sem verkin sækja innblástur til.

Tungumál efnisins

Myndsköpun Brynhildar Þorgeirsdóttur er hægt að setja upp eins og ættartré, verk hennar fæðast og tengjast og geta af sér afkomendur. Vissar breytur endurtaka sig og þróast, en síðan verður stökkbreyting og ný grein vex úr stofninum. Verkin sem hér eru til sýnis urðu til í spuna þar sem Brynhildur ýtti aðstoðarfólki sínu út fyrir þægindaramma sinn við glerblástur. Hún vildi að blásararnir misstu tökin svo hún gæti stjórnað stjórnleysinu og að loknu ferlinu fengi hún í hendur hluti sem yrðu henni framandi. Algert traust ríkti í samvinnunni og vinnuferlið byggði á samspili og jafnvægi milli þyngdarafls og hreyfingar.

Sýninging stendur frá 7. maí til 10. september.
Safnasafnið er opið daglega frá 10-17 til, tekið er á móti hópum samkvæmt samkomulagi.
Jafnaðarverð er 1.500 kr, með aðgöngumiða fylgir sýningarskrá.

Í sumar standa 12 nýjar sýningar í Safnasafninu á Svalbarðseyri á verkum eftir 15 listamenn og nemendur í Leikskólanum Álfaborg og Valsárskóla. Lögð er áhersla á ferskar hugmyndir og vandað handverk, glerblástur, útsaum, silfursmíði, keramik, ljósmyndun, dúkþrykk og margvíslega unnin viðarverk. Minnst er þriggja látinna myndlistarmanna sem lífið fór hörðum höndum um og eru sýningar þeirra hannaðar undir kjörorðunum Skapað úr safnkosti. Þá er skoðað hvernig myndtjáning getur hjálpað til við að losna undan sjálfsskaða og loka hann inni í skáp. En þrátt fyrir alvarleika inngildingar og alþjóðlegra markmiða eru sýningar safnsins bjartar og litríkar og höfða til allra skilningarvita.

Á hlaðinu eru verk eftir Aðalheiði S. Eysteinsdóttur, Eggert Magnússon, Hauk Halldórsson, Helga Valdimarsson og Ragnar Bjarnason frá Öndverðarnesi og á bílastæði Safnvörðurinn frægi eftir Huglistarhópinn. Í anddyri og blómaskála er sýningin Fjölskylda og vinir með verkum eftir Guðjón R. Sigurðsson frá Fagurhólsmýri, Helga Þórsson og nemendur í Valsárskóla á Svalbarðsströnd og börn í Leikskólanum Álfaborg. Við sólpall að vestan er tréskúlptúrinn Bæn eftir Hjalta Skagfjörð Jósefsson

Í Brúðustofu eru sem endranær brúður til sýnis frá öllum heimshornum, og sérsýning í skáp með verkum eftir B. Sóley Péturssdóttir sem ber titilinn Þöggun – aldrei aftur

Í miðrými er minningarsýning, Í garðinum heima, með verkum Pálma Kristinns Arngrímssonar (1930-2015) og í vestursal er sýning sem ber titilinn Í björtum sal, með raðir málverka eftir Hjálmar Stefánsson (1913-1989) frá Smyrlabergi. Í Austursal er önnur minningarsýning með verkum eftir lífskúnstnerinn Nonna Ragnas (1951-2019) sem ber titilinn Kærleikurinn er kær leikur.

Safnið fékk á þessu ári að gjöf 2.500 skráð textílverk sem Jenný Karlsdóttir hefur safnað og fara þau í sérstaka stofu henni til heiðurs, þau verða aðgengileg á vefsíðu með haustinu en þangað til verða útsaumsverk úr safni hennar á sýningunni Heimilisprýði, einnig útsaumsverk og plattar eftir Sísí Ingólfsdóttur.

Í bókastofunni eru í ár sýnd verk Stefáns Tryggva- og Sigríðarsonar undir titlinum Úr afgaungum eða öngvu, sem öll eiga það sameiginlegt að vera unnin í við, en með ólíkum hætti. Verk þessa fjölhæfa manns bera merki um þolinmæði, yfirlegu og natni.

Í Langasal eru sýnd verk eftir Brynhildi Þorgeisdóttur á sýningunni Tungumál efnis. Í Norðursölum sýnir Klemens Hannigan Hágæða Límtré og saman sýna þær Anna Hallin og Olga Bergman sýninguna Millilending, sem og hjónin Guðmundur Ármann og Hildur María Hansdóttir með sýninguna Svartigaldur.