Skip to content

Kíkó Korríró – Þórður Valdimarsson

Þórður Guðmundur Valdimarsson (aka Kikó Korriró) [1922-2002]. Þórður fæddist og ólst upp í vesturbænum í Reykjavík og bjó lengst af á heimili foreldra sinna. Hann stundaði nám í stjórnmálafræði við háskólann í Los Angeles, Bandaríkjunum, en fékk á námsárum sínum áhuga á myndlist. 

Eftir að hann kom aftur heim til Íslands, stundaði hann fræðistörf og skrifaði m.a. greinar í dagblöð þar sem hann hvatti útgerðir til að veiða rækju, loðnu og kolmunna, en fékk dræmar undirtektir. Þórður hafði unun af fjörugum samræðum um stjórnmál, skáldskap og dægurmál sem voru honum hugleikin þá og þá stundina, og ef staðreyndir umræðuefnisins lágu ekki fyrir tók hann sér skáldaleyfi til að fylla út í myndina, þannig að hún yrði litríkari og áhugaverðari og gæfi samkvæminu skemmtilegri og menningarlegri blæ. 

Lífshlaupi hans eru gerð góð skil í bók Aðalsteins Ingólfssonar listfræðings, Einfarar í íslenskri myndlist, 1988. Þórður skapaði verk um áratuga skeið áður en fyrsta sýning hans var sett upp í Listmunahúsinu í Lækjargötu 1983, en hún vakti athygli fyrir erótík og fjörlega litanotkun. Klippimyndir hans frá miðjum sjötta áratug 20. aldar eru með fyrstu Pop-Art verkum á Íslandi og eru nú sýnd í fyrsta sinn. Þórður var einn af virkustu listamönnum þjóðarinnar og brýnt að kynna verk hans fyrir nýrri kynslóð, sem hefur hvorki séð þau né heyrt listamannsins getið.