Skip to content

Hringferill myndlistar

15 þátta greiningarkerfi

Safnið tók sérstakt frumkvæði í stafsemi sinni 2001 með því að smíða greiningarkerfi til að nota til að útskýra verk fyrir höfundum þeirra og gestum safnsins. Til þess að auðvelda virkni kerfisins er það sett fram án flókinna pælinga. Líta ber á greiningarnar sem farveg fyrir þá sem vilja fræðast um myndlist, ekki gæðamat. Lærðir og sjálflærðir listamenn eru ekki nefndir, ekki heldur stefnur og straumar. Sá háttur er hafður á til að hamla á móti því að draga fólk í dilka, frekar bent á það hvernig verk eru hugsuð og útfærð og í hvaða hugarástandi viðkomandi listamaður var þegar hann bjó þau til.

Höfundur kerfisins hefur um nokkurt skeið lagt stund á listeðlisgreiningar þar sem nöfn eru nefnd til að hægt sé að fletta fólki upp og nálgast verk, lífshlaup og listferil. Það er svo álitamál hvort allir sætti sig við að vera felldir inn í flokka sem þessa og gefst þeim þá tækifæri til þess síðar að gera athugasemdir og fá leiðréttingar ef þær eru rökfærðar skynsamlega.

[1] Frumleiki

Hér er á ferðinni hrein og tær hugmynd sem stendur ein án stuðnings, þróast ekki en útvatnast ef reynt er að fylgja henni eftir í tilbrigðaformi. Þeir örfáu listamenn sem sífellt birta frumlegar hugmyndir njóta yfirleitt ekki þeirrar athygli sem þeir verðskulda, hvorki listasafna né almennings, hvað þá athygli fjölmiðla – sem þeir sækjast reyndar ekki eftir. Þeir eru taldir skorta staðfestu og einkennandi stíl en eru djarfhuga frumkvöðlar, leitandi og sívirkir og búa til áhrifarík verk sem leggja línurnar fyrir aðra – sjá andstæðu í Stælingu.

[2] Könnun

Hugmynd er tekin til rannsóknar og unnin af nákvæmni, sett fram með sértækar aðstæður í huga og leidd að rökréttri niðurstöðu. Úrvinnslan gerir kröfur um einfaldleik og óþvingaðan efnisnotkun, fagmennsku og gæði, að niðurstaðan verði óviðjafnanlegt listaverk.

[3] Stæling

Myndmálið er undir sterkum áhrifum frá hugmyndum annarra listamanna, jafnvel svo freklega að það brýtur gegn alþjóðasamningum á sviði höfundarréttar. Sporgöngumaður reynir þó yfirleitt að skapa sér einkennandi stílbrigði en gefst jafnóðum upp og snýr sér að annarri fyrirmynd til að herma eftir. Hann virðist ekki geta sótt sér áhrif svo að verk hans fái persónulegan blæ því þau standa ætíð í skugga vangetunnar. Aðrir ganga lengra í krafti frægðar og valds eða vörumerkis og leita uppi hugmyndir frumlegra höfunda og endurgera verk þeirra. Þýðir lítið að mótmæla með vísan í gildandi lagabálka því harðsvíruðum lögmannastofum er teflt fram til að krefjast sátta með milligjöf áður en athæfið kemst í hámæli. 1)

[4] Vani

Tjáning á mörkum listar. Höfundurinn lifir í sjálfsmærð, stöðugri hrifni annarra. Annars vegar eru verk hans án persónulegs framlags, með endurteknum formum, litasúpu og flottheitum, en svo flaumósa myndgerð á yfirleitt greiðan aðgang að áhrifagjörnum tískukaupendum sem líta fremur til vinsælda en gæða. Hún er sýnileg í verslunum og auglýst af útsjónarsemi eins og neysluvara en það vantar í hana hugkvæmni, merg og blóð. Hins vegar er það verklag sjálfhverfra höfunda sem endurnýta sömu verk trekk í trekk og setja þau í óljóst samhengi. 2)

[5] Föndur

Annars vegar ósjálfstæð myndgerð unnin eftir númerum, áprentuðum myndum eða steyptum í mót. Rammar skipta miklu í svo máttlausri framleiðslu, vandað handverk, umbúðir og skreytingar. Hins vegar myndgerð sem sprettur óvænt fram úr einkalífi eða áhugamáli og fær hugþekkan blæ og sjálfstætt yfirbragð vegna frávika í teikningu eða litanotkun og rambar á þeirri brothættu línu sem aðskilur list frá fúski – og færist yfir í Frásögn.

[6] Listlíki

Formgliðnun eða samþjöppun tákna, aragrúi smáatriða í ætt við úrkynjun þannig að handverkið ber innihaldið ofurliði. Verkið hrindir fólki frá sér, drukknar í hryggðarskopi. Á þessu eru þó athyglisverð undantekning þegar gerandinn nær óvart að fanga eitthvað sérstakt í fjöldaframleiddu listlíki sem hvetur hann til að búa til annað betra verk sem fellur að ríkjandi andrúmslofti – sjá nánar í Stemmingu.

[7] Þjóðrækni

Verk sem lýsa rómantískri hrifningu á landi og þjóð með persónulegri nálgun. Mikilvæg gildi eru í brennipunkti, afturhvarf til æsku og dýrmætra minninga sem vekja ljúfar kenndir. Þessi tilfinningaríka aðkoma birtist í kvöldstemmum, mistri til fjalla, nálægð við landið, yfirborð þess og smáatriði sem eru falin í eftirsjá og órjúfanlegri tryggð við heimahagana. Hún kemur líka fram í verkum listamanna sem hafa köllun til æðri afreka í þágu lands og þjóðar. Þeir líta á sig sem einstæða snillinga og starfa utan við stefnur og strauma og hafa lítið samband við aðra listamenn því þeir styðjast að þeirra dómi ekki við jafn háleit markmið. Verkin eru að nokkru leyti raunsæ en afleidd, vöðvabygging sjaldan rétt, hvort sem líkaminn er nakinn eða vafinn inn í efnismikil klæði. Þau eru hlaðin táknum og tilvísunum í liðna tíma því listamönnunum er hugleikið að kalla fram glæsta frægð og merkilegt mannlíf sem er horfið í hillingar eftirsjár og drauma, endurvekja það og fleyga inn í líðandi stund – sem mistekst af augljósum ástæðum. Enn aðrir hafna alfarið hræringum nútímans og leita langt aftur í aldir að stílbrögðum sem falla að smekk þeirra og tilfinningum.

[8] Skreyti

Glettin myndgerð, oft með hvarflandi formum, fjörmiklum tákngervingum og litadýrð. Hún er hraðvirk og grípandi og liggur upp við yfirborðið en nær sjaldan tilfinningalegri dýpt eða þeirri nánd sem ítrekuð skoðun kallar eftir, og er aðalsmerki þaulhugsaðra gæðaverka. Í þrívíðum verkum kemur þessi vöntun einnig fram, þá líkjast þau jafnvel stækkuðum skartgrip eða sælgæti – sjá: Listlíki.

[9] Sakleysi

Einföld barnsleg myndgerð (Naive), sjálfsprottin og hispurslaus, gerð án utan að komandi áhrifa, endurtekin með litlum tilbrigðum og fáum litum, oft í stórum flokkum þar sem öll verkin eru keimlík og spegla persónu höfundar, en síður samfélag hans og umhverfi. Meira er um þessi atriði í þrívíðum verkum en tvívíðum. 3)

[10] Íhald

Myndgerðin er fylgispekt við siði, ríkjandi skipulag í kyrrstæðum samfélögum sem gera mun á því hvar einstaklingur stendur innan ættflokks, virðulegs félags eða glæpagengis. Verkin eru bundin við hjarðhegðun, trúarathafnir, kynferðismál, manndómsvígslur, veiðar, afbrot, íþróttir, karlrembu, skottulækningar, töfra og launhelgar. Myndgerðin (primitive) hafði gríðarmikil áhrif í alþjóðlegri gerjun í “framúrstefnulist” í byrjun 20. aldar en skekkti um leið sýn manna á gildi hennar innan félags- og hugmyndakerfis sem mótaði hana í Afríku og þróaði í rás aldanna. Í nútíma er þessi staðlaða myndgerð þekkt meðal hópa sem þjappa sér saman undir geldum merkjum, húðflúrstáknum, fánum og verðlaunagripum til að viðhalda einingu, trúmennsku og völdum en útiloka um leið þá sem eru ekki eftirsóknarverðir af einhverjum ástæðum, eru metnir óæðri og óæskilegir.

[11] Frásögn

Myndir sem varðveita andblæ liðinna tíma, lýsa verklagi og atvinnuháttum, taka fyrir sögur og minni, örnefni, dali, fjöll, goðafræði, ævintýri, leiki og ferðalög, eða yfirnáttúruleg fyrirbæri, oft með nákvæmum útskýringum. Þá má nefna þau vinnubrögð frásagnarfólks að nota náttúruform í verk sín, afganga og endurnýtanlega hluti, stundum af slíkri festu að jaðrar við einbeitni umhverfisverndarsinna.

[12] Viðbragð

Skýring
Myndir sem eru unnar sem andsvar við slæmu uppeldi, ástleysi, höfnun, ofbeldi, einelti, úskúfun, einangrun, fangavist, svikum, starfsuppsögn, ástvinamissi og alvarlegum veikindum, afbrýði, árás í tölvu eða snjallsíma, sterkum lyfjum og neyslu fíkniefna. Hér er þó ekki um listmeðferð að ræða, þar sem leitað er sérstaklega að orsakavaldi, heldur viðbragð heilans gegn áfalli.

Í fyrsta lagi er um að ræða myndir sem eru innhverfar og blíðar, fara yfir þröskuld raunveruleikans og stefna inn á við þar sem hlutirnir kúra í friði. Það sem áður útilokaði viðkomandi mann frá eðlilegri þátttöku tákngerist smám saman í vörn utan um sársauka og einmanaleik. Hann afneitar því sem hrjáir hann, eða sættir sig við orðinn hlut og felur í djúpi hugans, upptendrar og fegrar, fyrirgefur og gleymir.

Í öðru lagi eru um að ræða myndgerð sem er á einhvern hátt ósjálfráð og birtist án fyrirvara í undirmeðvitundinni vegna næmrar skynjunar í slökun og íhugun eða dulrænni reynslu þegar áhyggjum og hversdags þönkum er vikið til hliðar. Þá taka “óravíddir sálarinnar” við og hugurinn fær frelsi til að tjá sig án skilyrða. Þetta hugarástand getur líka verið flóttaleið frá fjandsamlegu umhverfi inn í tilbúinn veruleika.

Í þriðja lagi er um að ræða myndir sem verða til vegna stökkbreytinga í erfðavísum eða langvinnrar lyfjameðferðar. Menn grípa í nærtæk hálmstrá og eru ýmist í sambandi við fljúgandi furðuhluti eða guðlegar verur, nema hvort tveggja sé, og telja sig hafa hlutverki að gegna. Þeir trúa því að skilaboðin sem þeim berast með misheyrn eða ofskynjun séu ætluð þeim persónulega og hafi þýðingu í nærheimi og fjarheimi.

Í fjórða lagi er um að ræða myndir sem flytja beinskeytt skilaboð með blygðunarlausum framslætti, ruddaskap, líkamlegu niðurbroti, klámi og trúarofstæki. Þær eru óþægilegar og fráhrindandi í nærveru augans.

Í fimmta lagi er um að ræða myndgerð sem framkallast af neyslu sterkra vímugjafa (Meskalín, LSD) þar sem atburðirnir brjótast stjórnlaust fram. Formin eru afbökuð og litavalið sjúklegt. Þetta eru uppskurðir á sál og líkama eða hyldýpi martraðarinnar. Framsetningin er ekki í tengslum við raunveruleikann heldur birtist hún sem ósjálfráð framrás truflana sem “höfundurinn” hefur enga stjórn á.

[13] Stemming

Myndgerð sem stýrist af kærulausu viðhorf gagnvart lærdómi og viðteknum sannindum. Verk í þessum flokki eru oft vaxtarbroddar í þróun nýrrar tjáningar og loga af skrýtnum uppátækjum, elskulegri kímni, barnslegri ádeilu og stríðni. Stundum eru verkin gelgjuleg, sem getur stafað af því að listasögukennslan fjallar ekki um merkilegar nýjungar heldur listamenn sem njóta tímabundinnar frægðar. Þetta fólki getur orðið fyrir þeirri óþægilegu reynslu að búa til verk á hugmyndavelli sem aðrir hafa sáð í, slegið og hirt, kynna þau sem uppgötvun sína og verður agndofa þegar mistökin koma í ljós. Þá er líka athyglisvert þegar líttmótaðir höfundar sækja í teiknimyndir og skopstælingar, notfæra sér mögu-leika formleysu eða ofhlæðis listlíkisins.

[14] Ýkjur

Í myndgerðinni kemur fram þráhyggjukennd löngun höfundar til að spegla sig í samtímanum með persónulegri afstöðu og andstöðu.

Í fyrsta lagi eru það höfundar sem nota eigindir listarinnar til að hneyksla, jafnvel klæðalausir til að magna áhrifin. Þeir kalla fram víðtæk viðbrögð með maraþon athöfnum sem jaðra við sjálfspíningu eða innilokun þar sem andrými er af skornum skammti

Í öðru lagi eru höfundar sem fá fólk með sýnihneigð til að stilla sér upp nakið á hópmyndum.

Í þriðja lagi siðblindir ruddar sem nýta sér neyð vitfirringa og útigangsmanna gegn smánarlegri greiðslu, flytja þá inn í skúmaskot til að mála á þá, stimpla eða brennimerkja fyrir ljósmyndatökur.

Í fjórða lagi eru það menn sem vinna með endurtekna áhersluþætti annarra listgreina og slæva áhorfendur uns þeir falla í leiðslu í síbyljunni og finna til samlíðunar með höfundinum – og virðist vera tilbrigði við Stokkhólmsheilkennið.

Í fimmta lagi mætti nefna víðáttumikil verk búin til úr fjölda aðfenginna eininga sem eru kynnt í þeim tilgangi að mótmæla einhverju eða draga að sér athygli. Þótt listmaður hafi fengið tilskilin leyfi er umræddu verki ósjaldan þröngvað upp á íbúa við háværa mótstöðu þeirra – sem orkar þá náttúrulega öfugt, höfundinum til óblandinnar ánægju. 4)

[15] Speki

Listamaðurinn vitnar í eigin rannsóknir með miklu streymi upplýsinga og smáatriða sem rugla skoðandann í ríminu, nema hann hafi lagt á sig nokkurt erfiði til að skilja frumhugsunina og sé innvígður í hugmyndakerfið. Myndgerðin er yfirleitt falleg og grípandi og ef skoðandinn nýtur hennar frír af inntakinu og kerfinu sem býr að baki verður hann undireins aðdáandi viðkomandi listamanns. 5)

Tilvitnanir

1. Viðhorf margra listamanna til höfundarréttar hefur á undanförnum árum tekið miklum breytingum til hins verra og er lítið skeytt um sæmdarrétt og tilfinningar þeirra sem fyrir þeim verða. “Fræg og virt” listasöfn og listhús taka jafnvel þátt í svo alvarlegu afbrotum og komast upp með það vegna þess að listamennirnir sem níðst er á fá ekki stuðning fagfélaga og opinberra eftirlitsstofnana. Í þessu samhengi er vert að geta þess að þegar fjöldaframleiddur hlutur er felldur inn í listaverk glatar hann tilgangi sínum og fær breytta merkingu í stærri heild. Viðhorf skapandi listamanns til slíks hlutar er því annað en til listaverka sem hafa öðlast þegnrétt á sýningum eða annars staðar.

2. Með endurnotkun eru fullgild listaverk svipt frumlagi sínu og erfitt fyrir þann sem þekkir til að nálgast þau af hlutlægni og fella sig við nýja hlutverkið. Þá er sú hætta fyrir hendi að listasöfn gæti ekki hófs við hönnun sýninga úr safnkosti og svipti verk sérstöðu sinni, listgildi og virðingu.

3. Teikningar barna eru af öðru tæi, einkaheimar með líkamlegri nánd. Börn segja sögur og lýsa reynslu, fela eitt eða ota öðru fram eftir hentugleikum. Þess vegna geta verk þeirra gagnast vel í listmeðferð til að leita annmarka eða djúpstæðra orsaka að baki frábrigðilegri hegðan og vanlíðan.

4. Listaverk sem tekur fyrir hörmulegan atburð og varpar ljósi á hann getur staðist tímans tönn. Verk sem beinist að einhverju í pólitískum tilgangi er dæmt til að mistakast, það hefur heimildargildi áróðurs og æsifréttamennsku. Það er ekki hægt að setja það upp aftur því það hefur misst slagkraft sinn, er bara holur hljómur, minning um framhjágengið viðfagnsefni, endurtekin tíska.

5. Í þessu sambandi má nefna að til eru listamenn sem trúa því að listsköpun þeirra hafi heilandi áhrif á sál og líkama, einkanlega þvíðvíð verk sem gefa fólki huglægan straum því þau eiga að búa yfir óútskýranlegri orku.

Opnunartími 2023

6. maí – 10. september
10:00 – 17:00

Safnasafnið

Svalbarðsströnd
601 Akureyri

Hafðu samband

(+354) 461 4066
safngeymsla@simnet.is